Það voru nokkur Íslendingalið sem spiluðu leiki í dag og var Logi Tómasson í byrjunarliði Strömsgodset sem lagði KFUM Oslo að velli í þriðju umferð nýs deildartímabils í Noregi.
Logi spilaði allan leikinn í vinstri vængbakvarðastöðunni og lagði hann annað mark leiksins upp í 1-3 sigri.
Strömsgodset er þar með komið með sex stig eftir þrjár umferðir, en liðið steinlá á útivelli gegn Molde í fyrstu umferð.
Valgeir Valgeirsson var þá í byrjunarliði Örebro sem tapaði á útivelli gegn Öster í næstefstu deild sænska boltans. Þorri Mar Þórisson var ekki í hóp hjá Öster.
Örebro er án stiga eftir þrjár fyrstu umferðir nýs deildartímabils, á meðan Öster er með sjö stig.
Kvennalið OH Leuven lagði þá Club Brugge að velli í titilbaráttunni í Belgíu. Leuven vann 1-0 og er aðeins einu stigi á eftir toppliði Standard Liege þegar sex umferðir eru eftir.
Íslenska landsliðskonan Diljá Ýr Zomers var í byrjunarliði Leuven í sigrinum í dag.
Bolton er að lokum að spila heimaleik við Shrewsbury í þriðju efstu deild á Englandi en Jón Daði Böðvarsson er ekki í hóp, eflaust vegna meiðsla eða veikinda. Bolton er einu marki undir í seinni hálfleik á heimavelli en þarf á sigri að halda í toppbaráttunni.
KFUM Oslo 1 - 3 Stromsgodset
Oster 2 - 0 Orebro
OH Leuven 1 - 0 Club Brugge
Athugasemdir