Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mið 16. október 2019 11:13
Magnús Már Einarsson
Hemmi Hreiðars lét ræna Matt Jansen
Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Matt Jansen.
Matt Jansen.
Mynd: Getty Images
Matt Jansen, fyrrum framherji Crystal Palace og Blackburn, er að gefa út ævisögu sína þessa dagana. Jansen byrjaði feril sinn hjá Blackburn af krafti en hann lenti í alvarlegu mótorhjólaslysi á Ítalíu árið 2002 og eftir það náði ferillinn ekki sama flugi.

Tímabilið 1998/1999 var Jansen liðsfélagi Hermanns Hreiðarssonar hjá Crystal Palace. Í dag birtist á heimasíðu Crystal Palace saga af því þegar Jansen heimsótti Hermann til Íslands. Móttökurnar við komuna til Íslands voru allt öðruvísi en Jansen hafði reiknað með!

Brot úr bókinni hjá Jansen
Hann (Hermann) kom frá Vestmannaeyjum, við suðuströnd Íslands, og hann vildi sýna mér kletta og náttúruleg böð. Það hljómaði eins og ævintýri sem væri þess virði að skoða svo ég bókaði flug og bað Hermann að sækja mig á flugvöllinn.

Eftir að hafa gengið í gegnum tollinn tók ég töskurnar mínar í gegnum hliðið á flugvellinum og andaði að mér fersku lofti. Þegar ég var að undirbúa mig undir að leita að Hermanni sá ég þrjá menn labba í áttina að mér.

Áður en ég náði áttum þá komu þeir til mín og gripu utan um handleggina mína. Einn setti hettu yfir höfuðið á mér og hinir héldu höndunum fyrir aftan bakið á mér, og náðu nánast að binda þær saman.

Ég var dreginn nokkra metra þar til ég heyrði dyr á sendibíl opnast. Mér var hent inn og bifreiðin keyrði af stað, áfangastaðurinn var óljós.

Ég var í þessari skrýtnu martröð og þarna í myrkrinu missti ég alveg tímaskynið en á endanum opnuðust dyrnar og ég var dreginn aftur út.

Mér var hent inn í byggingu sem virtist miðað við bergmálið vera á stærð við vöruhús. Ég heyrði hljóðið í fótunum á stól þegar honum var ýtt yfir gólfið.

'Sestu niður.'

Ég sat og hlustaði á nokkra menn rífast á háværan hátt, ég giska á að það hafi verið á íslensku.

Þegar öskrin hættu þá fann ég að eitthvað var að skvettast nálægt sætinu mínu. Það var verið að hella vökva í kringum mig en ég hafði ekki tíma til að átta mig á því hvaða vökvi þetta var því loksins var hettan tekin af mér og þar stóð fyrir framan mig skellihlæjandi Hermann.

Það er eflaust hægt að segja margt um íslenskan húmor.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner