Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 16. október 2021 19:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Skelfileg frammistaða Maguire - Solskjær enn með fullt traust
Harry Maguire.
Harry Maguire.
Mynd: Getty Images
Ole Gunnar Solskjær hefur ekki unnið neitt sem stjóri Man Utd. Hann tók við liðinu 2018.
Ole Gunnar Solskjær hefur ekki unnið neitt sem stjóri Man Utd. Hann tók við liðinu 2018.
Mynd: Getty Images
Varnarmaðurinn Harry Maguire byrjaði óvænt þegar Manchester United tapaði fyrir Leicester í ensku úrvalsdeildinni í dag, 4-2.

Maguire hefur verið að glíma við meiðsli. Talið var að Victor Lindelöf og Eric Bailly myndu byrja saman í hjarta varnarinnar en annað kom á daginn; Maguire byrjaði við hlið Lindelöf.

Maguire átti ömurlegan leik fyrir United. Hann tapaði boltanum illa í fyrsta markinu sem Leicester skoraði og var alls ekki sannfærandi.

„Man ekki eftir verri miðvarðar frammistöðu en hjá Maguire í þessum leik. Hrottalegur," skrifaði Tryggvi Páll Tryggvason, sem er mikill stuðningsmaður Man Utd, á Twitter.

Maguire fékk þrjá í einkunni hjá staðarmiðlinum Manchester Evening News. Hann var ekki tilbúinn í þennan leik. Ole Gunnar Solskjær, stjóri Man Utd, var spurður út í ákvörðunina að byrja með Maguire eftir leik.

„Ég vel liðið. Harry sýndi engin viðbrögð við meiðslunum sem hann hefur gengið í gegnum. Ég tek ábyrgð ef hlutirnir ganga ekki upp. Stundum gera þeir það ekki. Ef við fáum á okkur fjögur mörk, þá hef ég líklega tekið nokkrar slæmar ákvarðanir," sagði Solskjær.

„Öll mörkin sem við fengum á okkur voru slök af okkar hálfu. Frammistaðan var klárlega ekki góð."

Solskjær með fullt traust
United átti mjög góðan félagaskiptaglugga. Félagið keypti Jadon Sancho, Raphael Varane og sjálfan Cristiano Ronaldo. Þrátt fyrir það hefur frammistaða liðsins og úrslitin verið mjög slök. Á samfélagsmiðlum kalla stuðningsmenn eftir þjálfarabreytingu, en samkvæmt fjölmiðlamanninum áreiðanlega, David Ornstein, þá er Solskjær með fullt traust stjórnar Man Utd eins og er.

Norðmaðurinn hefur náð að byggja upp öflugan leikmannahóp á síðustu þremur árum, en liðið hefur ekki enn unnið neitt undir hans stjórn. Það er talið mikið áhyggjuefni.

Solskjær skrifaði nýverið undir samning til 2024 við Manchester United.



Athugasemdir
banner
banner