mán 17. maí 2021 12:45
Elvar Geir Magnússon
Engin smá ábyrgð á herðum Kjartans Henry
Kjartan Henry þarf að koma inn og kveikja undir KR.
Kjartan Henry þarf að koma inn og kveikja undir KR.
Mynd: Esbjerg
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, og aðstoðarmaður hans Sigurvin Ólafsson.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, og aðstoðarmaður hans Sigurvin Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tómas Þór Þórðarson talaði um það í útvarpsþættinum Fótbolti.net hversu ósannfærandi KR-ingar hafa verið í síðustu tveimur leikjum.

KR á stórleik gegn Val í kvöld en Kjartan Henry Finnbogason verður væntanlega í hópnum. Tómas segir að Kjartan verði að koma inn og lyfta KR á hærra plan.

„Ég hélt að þeir myndu fara upp í Árbæ og pakka krökkunum saman en þeir áttu ekki skilið meira en stig úr þeim leik. Ég hef smá áhyggjur af KR núna," segir Tómas.

„Kjartan Henry Finnbogason, það er engin smá ábyrgð á hans herðum, og ég er ekki bara að tala um í markaskorun. Hann þarf að koma inn og kveikja undir þessu dóti. Það er eitthvað sem hann getur svo sannarlega með almennum töffaraskap, mörkum og frammistöðu. Þetta er gamalt lið en reynsluboltar þurfa stundum einhvern til að ýta aðeins við sér."

„Mér líður eins og Kjartan Henry þurfi nánast að setja þetta KR lið á bakið. Það er ósanngjarnt því hann hefur ekki spilað í þessari deild í háa herrans tíð en hann kemur inn með svakalega pressu. Eitthvað þarf að gerast svo þetta tímabil KR verði ekki eins og í fyrra. Þeir eru rosalega ósannfærandi," segir Tómas.

Kjartan er með staðfest félagaskipti og er löglegur en er að klára sóttkví. Hann mun væntanlega vera í leikmannahópnum hjá KR í kvöld en án þess að hafa æft með liðinu. Hann er að bíða eftir niðurstöðu úr skimun.

Varnarmaðurinn Finn­ur Tóm­as Pálma­son verður í hópnum.

Leikurinn í kvöld er gríðarlega mikilvægur fyrir KR-inga en ef þeir tapa gætu þeir verið komnir nokkuð langt á eftir efstu liðum.

„Þetta er risaleikur, ef FH og KA vinna sína leiki þá verða þau með tíu stig. KR gæti verið skilið eftir með fjögur stig á meðan Valur fer þá líka upp í tíu stig í kvöld," segir Tómas.

mánudagur 17. maí

Pepsi Max-deild karla
18:30 Keflavík-KA (HS Orku völlurinn)
19:15 KR-Valur (Meistaravellir)
19:15 ÍA-Stjarnan (Norðurálsvöllurinn)
19:15 HK-FH (Kórinn)
Útvarpsþátturinn - Pepsi Max, Lengja og enski
Athugasemdir
banner
banner
banner