mið 17. ágúst 2016 14:52
Elvar Geir Magnússon
ÍA notar EM peningana í sérstök framfaraverkefni
ÍA ætlar að stuðla að því að félagið skili fleiri afreksmönnum frá sér.
ÍA ætlar að stuðla að því að félagið skili fleiri afreksmönnum frá sér.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Peningar Leiknis fara ekki í meistaraflokkinn.
Peningar Leiknis fara ekki í meistaraflokkinn.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Grindavík bætir aðstöðu sína.
Grindavík bætir aðstöðu sína.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan hefur verið að efla starf yngri iðkenda.
Stjarnan hefur verið að efla starf yngri iðkenda.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Fótbolti.net sendi fyrirspurnir til allra félaga í Pepsi- og Inkasso-deildunum varðandi EM framlagið frá KSÍ. Spurt var í hvað félögin ætla að nýta peningana og hve stór hluti færi í yngri flokka.

Sjá einnig:
Íslensk félög fá 453 milljónir frá KSÍ vegna EM

Örn Gunnarsson hjá ÍA svaraði því að peningurinn sem félagið fær yrði ekki notaður í rekstur félagsins á þessu ári.

„Á stjórnarfundi félagsins þann 11. ágúst s.l. var samþykkt tillaga þess efnis að fjármunum þessum yrði ekki varið til rekstrar félagsins heldur yrði ráðstafað í sérstök framfaraverkefni á næstu árum. Vinnuhópur innan félagsins vinnur að tillögugerð í þessum efnum," segir Örn.

„Knattspyrnufélag ÍA mun virða uppruna þessara fjármuna og beina þeim í verkefni sem eru til þess fallinn að efla yngri iðkendur félagsins og með því auka líkurnar á því að enn fleiri afreksmenn skili sér úr því góða starfi sem fram fer hjá félaginu."

Leiknir Reykjavík nýtir allan peninginn í uppbyggingu á starfinu
Þórður Einarsson, framkvæmdastjóri Leiknis í Breiðholti, segir það ákveðið að þeirra skerfur muni ekki fara í rekstur meistaraflokks eða daglegan núverandi rekstur félagsins.

„Þetta fer allt í uppbyggingu á starfinu. Ekkert í meistaraflokk. Aðstöðumál yngri flokka, þjálfun yngri leikmanna og þjálfaramál (aukalega/menntun osfrv), verða sennilega okkur efst í huga," segir Þórður.

Grindavík byggir upp mannvirki
„Áætlun Knattspyrnudeildar UMFG gerir ráð fyrir því að EM-framlagið fari í uppbyggingu á íþróttamannvirkjum tengdum knattspyrnu í Grindavík," segir í svari Jónasar Þórhallssonar, formanns Grindavíkur.

Hann sendi Fótbolta.net teikningar nýju mannvirki við stúku og fjölnotahús sem tengir saman núverandi íþróttamannvirki.

„Við vorum með kynningarfund í Gjánni föstudaginn 15. apríl s.l. fyrir bæjarstjórn, alla sviðstjóra og Frístunda- og menningarnefnd bæjarins. Þar fórum við fyrst yfir sögu Knattspyrnudeildar og síðan voru ný íþróttamannvirki kynnt. Við fengum mjög góðar viðtökur."

Horft til áhersluþátta KSÍ
KA, Valur, Stjarnan, Breiðablik og Þór hafa öll svarað fyrirspurn Fótbolta.net á þann hátt að það eigi eftir að taka ákvörðun á stjórnarfundum hjá félögunum.

Almar Guðmundsson, formaður Stjörnunnar, segir að í Garðabæ verði horft til þeirra áhersluþátta sem KSÍ hefur nefnt.

„Þeir ríma raunar býsna vel við okkar stefnu og aðgerðir í starfinu undanfarin misseri. Við höfum verið að efla allt starf sem kemur að yngri iðkendum og að leggja metnað í að starfið skili öflugum strákum og stelpum upp í meistaraflokka og eftir atvikum í atvinnumennsku," segir Almar.

Aðalsteinn Ingi Pálsson hjá Þór segir: „Við tökum okkur góðan tíma í að meta með hvaða hætti er vænlegast að nýta þetta sem best og fylgjumst með hvernig önnur félög bera sig að en þetta er þó nokkuð leiðbeinandi frá KSÍ að þeir vilja fleiri leikmenn í hæsta gæðaflokki."

HK, Haukar, Fylkir hafa látið vita að svara við fyrirspurn sé að vænta.

Þegar þessi frétt er skrifuð hafa ekki borist svör frá FH, Fjölni, KR, Víkingi R., Víkingi Ó., ÍBV, Þrótti, Keflavík, Selfossi, Fram, Fjarðabyggð, Huginn og Leikni F.



Fyrirspurn Fótbolta.net:

1. Hvað er í forgangi hjá þínu félagi í að nýta EM framlagið í?

2. Er skipulögð áætlun hjá félaginu í hvað framlagið fer?
- Ef svo er, hvernig er sú áætlun í stuttu máli og er hún opinber?

3. Hve stór hluti er hugsaður beint í starf yngri flokka og í að búa til öflugri leikmenn?

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner