Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 18. febrúar 2021 14:03
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Ekkert merkilegt að vera bara einhver fertugur sleði á miðjunni"
Helgi með fyrirliðabandið í fyrra.
Helgi með fyrirliðabandið í fyrra.
Mynd: Raggi Óla
Þar sem við erum með mjög ungan og spennandi hóp þá bý ég yfir meiri reynslu en flestir liðsfélagar mínir og hef gengið í gegnum mikið á mínum ferli sem ætti að geta gagnast liðinu.
Þar sem við erum með mjög ungan og spennandi hóp þá bý ég yfir meiri reynslu en flestir liðsfélagar mínir og hef gengið í gegnum mikið á mínum ferli sem ætti að geta gagnast liðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Að því sögðu, þá er ég fyrst og fremst í þessu ennþá til að spila leiki, þar sem mér finnst í rauninni miklu skemmtilegra að spila fótbolta í dag en þegar ég hefði átt að vera á mínum bestu árum í boltanum."

Helgi Valur Daníelsson sneri til baka á völlinn í gærkvöldi þegar hann kom inn á gegn ÍBV með Fylki í Lengjubikarnum. Helgi, sem verður fertugur í sumar, hafði verið frá síðan snemma síðasta sumar þegar hann meiddist illa.

Óttast var að ferlinum væri líklega lokið en Helgi sagði svo sjálfur í viðtali við Fótbolta.net í ágúst að hann hefði mögulega ekki sungið sitt síðasta. Hann skrifaði svo í nóvember undir nýjan samning við Fylki. Fótbolti.net heyrði í Helga í dag og spurði hann út í leikinn í gær og komandi tímabil.

Hvernig var tilfinningin að komast aftur á völlinn eftir þessi erfiðu meiðsli?

„Það var auðvitað mjög gaman og gerðist í raun fyrr en ég hafði leyft mér að vona. Ég hafði stefnt á að ná einhverjum mínútum áður en Pepsi Max-deildin myndi byrja, þannig að mér finnst ég vera á góðum stað núna," sagði Helgi.

Hvernig er skrokkurinn núna?

„Ég á ennþá ansi langt í land með að komast í samkeppnishæft form en ég hef getað verið með á fullu síðustu vikur og get vonandi haldið áfram að bæta í og fá fleiri og fleiri mínútur í alvöru leikjum."

Hvernig hefur endurhæfingaferlið verið, hafa komið einhver bakslög?

„Það er búið að vera upp og niður, eins og við var að búast, og ég fór kannski full hratt af stað og hélt ég hefði brotið upp úr einni brotalínunni í fætinum í byrjun janúar. Það var sem betur fer bara smá tognun og ég kom betur tilbúinn aftur eftir það. Ég geri mér grein fyrir því að ég mun finna fyrir meiðslunum í lengri tíma en annars er restin af skrokknum í fínu lagi."

Varstu búinn að horfa á leik í Lengjubikarnum sem markmið í langan tíma varðandi endurkomu?

„Já, það var planið fyrir jól að ná leikjum á undirbúningstímabilinu og þó svo ég sé ekki 100% klár núna þá hafa þessir leikir minni þýðingu og ef þjálfararnir treysta mér í einhverjar mínútur, þrátt fyrir að ég sé ekki á pari ennþá við ungu strákana, þá á það eftir að hjálpa mér mikið."

Teluru að þú hafir enn mikið fram að færa fyrir Fylki og sérð fyrir þér hlutverk í liðinu?

„Já, ég tel það. Þar sem við erum með mjög ungan og spennandi hóp þá bý ég yfir meiri reynslu en flestir liðsfélagar mínir og hef gengið í gegnum mikið á mínum ferli sem ætti að geta gagnast liðinu. Hreint fótboltalega séð þá finnst mér ég ennþá geta veitt strákunum samkeppni sem vonandi gerir þá bara betri fyrir vikið. Að því sögðu, þá er ég fyrst og fremst í þessu ennþá til að spila leiki, þar sem mér finnst í rauninni miklu skemmtilegra að spila fótbolta í dag en þegar ég hefði átt að vera á mínum bestu árum í boltanum."

Fyrir þá sem vilja fræðast er hægt að lesa meira um Helga og hans sögu hér.

Þú verður fertugur í sumar, væri gaman að geta sagst vera enn í fullu fjöri í boltanum á fimmtugsaldri?

„Já, það er það auðvitað en þá verður maður líka að sýna að maður á erindi í liðið og hefur eitthvað fram að færa. Það er ekkert merkilegt að vera bara einhver fertugur sleði á miðjunni," sagði Helgi að lokum.
Athugasemdir
banner
banner