mið 18. maí 2022 21:21
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Stjarnan stal sigrinum með tveimur mörkum á lokamínútunum
Jasmín Erla Ingadóttir gerði tvö mörk fyrir Stjörnuna
Jasmín Erla Ingadóttir gerði tvö mörk fyrir Stjörnuna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Afturelding 1 - 3 Stjarnan
0-1 Jasmín Erla Ingadóttir ('30 )
1-1 Sigrún Gunndís Harðardóttir ('34 )
1-2 Jasmín Erla Ingadóttir ('85 )
1-3 Katrín Ásbjörnsdóttir ('90 )
Rautt spjald: Sigurbjartur Sigurjónsson, Afturelding ('89) Lestu um leikinn

Stjörnukonur unnu 3-1 sigur á Aftureldingu í 5. umferð Bestu deildar kvenna á Malbikstöðinni að Varmá í kvöld. Tvö mörk undir lok leiks tryggði Stjörnunni sigur.

Það var lítið um hættuleg færi fyrstu mínúturnar en það kom mark úr fyrsta alvöru færinu. Jasmín Erla Ingadóttir gerði það eftir sendingu Katrínar Ásbjörnsdóttur. Jasmín átti skot sem var varið en boltinn barst aftur til hennar og skoraði hún í annarri tilraun.

Fjórum mínútum síðar jafnaði Sigrún Gunndís Harðardóttir eftir fyrirgjöf Jade Arianna Gentile.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum fékk Afturelding fínt færi til að komast yfir. Kristín Þóra Birgisdóttir átti þá skot sem fór beint á Chante Sherese Sandiford en markvörðurinn var nálægt því að missa boltann í gegnum klofið.

Stjörnukonur leituðu að marki síðustu mínúturnar og þegar fimm mínútur voru eftir kom það. Jasmín Erla skoraði þá með skalla eftir hornspyrnu áður en Katrín gulltryggði sigurinn með skallamarki eftir annað horn og lokatölur 3-1 fyrir Stjörnuna.

Sigurbjartur Sigurjónsson, stjórnarmaður Aftureldingar, fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiks eftir orðaskipti við dómara leiksins.

Stjarnan er með 7 stig í 5. sæti deildarinnar en Afturelding í næst neðsta sæti með 3 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner