Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 18. júní 2019 09:07
Elvar Geir Magnússon
Platini hefur verið handtekinn
Michel Platini.
Michel Platini.
Mynd: Getty Images
Michel Platini, fyrrum forseti UEFA, hefur verið handtekinn vegna rannsóknar á spillingarmálum í tengslum við að Katar fékk að halda HM 2022.

Platini var handtekinn í suðurhluta Parísar í morgun en hann var forseti UEFA frá 2007-2015.

Hann hætti sem forseti þegar hann var dæmdur í sex ára bann frá afskiptum af fótbolta. Það bann var svo stytt niður í fjögur ár af alþjóðlega íþróttadómstólnum CAS.

Óhreint mjöl var í pokahorninu þegar Katar fékk að halda HM 2022 en árið 2010 var tilkynnt að HM yrði í Rússlandi 2018 og svo í Katar fjórum árum síðar.

Platini hefur viðurkennt að hafa fundað með Kataranum Mohamaed Bin Hammam, sem þá var forseti knattspyrnusambands Asíu, nokkrum dögum áður en kosið var um hvar halda skyldi HM. Bin Hammam er nú í ævilöngu banni frá afskiptum af fótbolta.

The Telegraph segir að Platini og Bin Hammam hafi fundað milli 30 og 50 sinnum.

Platini var valdamikill innan FIFA og var talið víst að hann yrði forseti FIFA eftir að Sepp Blatter myndi hætta. Afhjúpun á spillingarmálum innan fótboltaheimsins breytti því öllu saman.

Platini var magnaður fótboltamaður á sínum tíma og vann Ballon d'Or gullknöttinn þrjú ár í röð. Hann lék meðal annars fyrir Juventus og franska landsliðið.
Athugasemdir
banner
banner
banner