
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, gerir þrjár breytingar á liði sínu fyrir leikinn gegn Frakklandi í lokaleik D-riðils á Evrópumótinu.
Lestu um leikinn: Ísland 1 - 1 Frakkland
Agla María Albertsdóttir, Guðný Árnadóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir koma inn fyrir Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur, Guðrúnu Arnardóttur og Elísu Viðarsdóttur.
Þorsteinn segist vonast til að fá meira uppspil úr vörnininni og er þá einnig að horfa í hraðann gegn sterku liði Frakklands.
Ísland á góðan möguleika að komast áfram. Sigur tryggir liðinu áfram en önnur úrslit þýða það að Ísland þarf að treysta á úrslit úr leik Belgíu og Ítalíu.
„Ég bara vonast til að fá betra uppspil úr vörninni. Það er svona stærsta breytingin sem ég er að vonast eftir. Ég mun fá meiri hraða með Guðnýju og vonandi betra uppspil frá varnarmönnunum. Það er svona stærsta breytingin," sagði Þorsteinn við Einar Örn Jónsson á RÚV.
Hann útskýrði sérstaklega breytingarnar í vörninni. Guðrún hefur spilað vel í miðri vörn, en hann segir að hann verði að þora að gera breytingar og ætlar að standa og falla með þeim.
„Já, það er partur af því líka. Guðrún er búin að vera hrikalega góð varnarlega og maður þarf að þora einhverju í þessu. Maður þarf að standa og falla með þessum ákvörðunum."
„Ég er að horfa í hraðann, þær eru með fljóta vængmenn. Horfi í hraðann hjá Guðnýju og vonandi virkar það. Sama með Ingibjörgu, hún getur varist vel og vonast til að vörninni gangi betur að halda í boltann," sagði Þorsteinn við RÚV.
Leikurinn hefst 19:00 og er auðvitað í beinni textalýsingu hjá Fótbolta.net.
Athugasemdir