Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 19. janúar 2020 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Upphitun: Af hverju er Liverpool - Manchester United leikur leikjanna?
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Michael Owen eða Júdas eins og Jóhann kallaði hann.
Michael Owen eða Júdas eins og Jóhann kallaði hann.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Gekk lítið undir stjórn Roy Hodgson hjá Liverpool.
Gekk lítið undir stjórn Roy Hodgson hjá Liverpool.
Mynd: Getty Images
Bobby Charlton
Bobby Charlton
Mynd: Getty Images
George Best
George Best
Mynd: Getty Images
Ian Rush
Ian Rush
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
92 árgangurinn frægi.
92 árgangurinn frægi.
Mynd: Getty Images
Bryan Robson í ensku landsliðstreyjunni.
Bryan Robson í ensku landsliðstreyjunni.
Mynd: Getty Images
Í dag klukkan 16:30 hefst viðureign Liverpool og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn fer fram á Anfield, heimavelli Liverpool.

Það eru flestir sammála um að viðureignir Manchester United og Liverpool séu stærstu leikirnir á hverju tímabili á Englandi. Þetta eru tvö af sigursælustu félögum heims og þau eru tvö vinsælustu félög meðal íslenskra knattspyrnuunnenda.

Það eru margir stuðningsmenn íslenskra knattspyrnufélaga sem myndu frekar horfa á United eða Liverpool spila í úrvalsdeildinni í stað þess að horfa á sitt lið leika í deildar- eða bikarkeppninni hér á landi, ef liðin leika á sama tíma.

Rígurinn
Sú staðreynd að þetta eru tvö sigursælustu félög ensku knattspyrnunnar er líklega helsta ástæðan fyrir því að þau eru þau tvö vinsælustu. Manchester United hefur alls tuttugu sinnum orðið enskur meistari og Liverpool átján sinnum, næst í röðinni kemur Arsenal með þrettán deildartitla.

Fréttaritari ákvað að miða við árið 1973 og skoða fjölda deildartitla þessara tveggja félaga frá og með því ári. Liverpool sigraði deildina 1973 og vorið 1990 vann liðið sinn ellefta titil frá og með titlinum '73. Ellefu titlar og á meðan sigraði Manchester United aldrei deildina.

Skemmst er frá því að segja að Liverpool hefur ekki sigrað deildina síðan en við tók mikið blómaskeið hjá United. Vorið 1993 sigraði United í deildinni í fyrsta sinn í 26 ár. Frá og með titlinum árið 1993 vann liðið deildina þrettán sinnum á árunum '93-2013. Síðan hefur Manchester United ekki unnið deildartitil.

Um 50 kílómetrar eru á milli Old Trafford, heimavallar Manchester United, og Anfield, heimavallar Liverpool. Fjarlægðin er því ekki mikil. Rígurinn er einn sá mesti í heimi. Stuðningsmenn líta á þetta sem jafnvel stærri viðureignir heldur en Liverpool gegn Everton (Slagurinn um Bítlaborgina) og Manchester United gegn Manchester City (Bardaginn um Manchester).

Mikill rígur er á milli knattspyrnufélaganna og ýtir rígur milli borganna, Manchester og Liverpool, undir ríginn milli félaganna. Samkeppni í iðnaði og efnahagi er í sögulegu samhengi mikil. Velgengni félaganna á síðustu fimmtíu árum, á mismunandi tímabilum innan þess tímaramma, varð til þess að þessi félög eru tvö stærstu og vinsælustu félög heims.

Liverpool hefur unnið sex Evrópumeistaratitla gegn þremur hjá United. Samtals hefur United sigrað 66 titla gegn 63 hjá Liverpool (skv. Wikipedia).

Stjórarnir
Fréttaritari ákvað að stikla á stóru í stjórum félaganna, einhverjir verða ekki nefndir en þannig verður svo að vera. Svo má alltaf skoða leikmenn liðanna eða frægar viðureignir en það verður minna um það í þessari grein.

Bill Shankly tók við Liverpool árið 1959 og sigraði átta titla á fimmtán árum, með honum hófst blómaskeið Liverpool. Bob Paisley kom næstur og tryggði liðinu tuttugu titla á níu tímabilum. Næst kom Joe Fagan og svo kom Kenny Dalglish inn sem stjóri og stýrði Liverpool út blómaskeiðið mikla. Graeme Souness tók svo við árið 1991.

Af þeim 66 titlum, sem United hefur unnið, unnust 56 þeirra undir stjórn Sir Matt Busby (1945-69, 70-71), Sir Alex Ferguson (1986-2013) og Ernest Mangnall (stýrði United snemma á 20. öldinni). Busby, sem hafði áður verið fyrirliði Liverpool, sigraði þrettán titla sem stjóri. Hann hætti árið 1969 sem stjóri félagsins og félaginu gekk upp og ofan næstu sautján árin eða þar til Ferguson tók við.

Á þeim 26 árum rúmum sem Sir Alex var við stjórnvölin sigraði United alls 38 titla. Frá því að Feguson hætti, árið 2013, hefur United einungis endað tvisvar sinnum í einu af efstu fjórum sætunum í deildinni. Helsta afrek Ferguson var að sigra þrennuna eftirsóttu, ensku úrvalsdeildina, Meistaradeildina og enska bikarinn árið 1999.

David Moyes tók við Manchester United í kjölfar Ferguson en fékk ekki að klára eitt tímabil sem stjóri, ekkert gekk. Louis van Gaal og Jose Mourinho komu inn og náðu misjöfnum árangri en í dag er Ole Gunnar Solskjær, ein af hetjunum úr 1999 liðinu, við stjórnvölin.

Þó Liverpool hafi ekki tekist að sigra deildina frá árinu 1990 hefur liðið unnið Meistaradeild Evrópu í tvígang. Rafa Benitez, Brendan Rodgers og Jurgen Klopp hafa allir stýrt Liverpool í 2. sætið í ensku úrvalsdeildinni á síðustu tólf tímabilum.

Liðið var í sinni dýpstu lægð þegar Roy Hodgson var við stjórnvölin tímabilið 2010-2011. Hodsgon var rekinn í janúar 2011 og Kenny Dalglish, hetjan frá síðustu öld, tók við út tímabilið. Brendan Rodgers tók við félaginu í kjölfarið og rétti við skútunni á næstu árum. Hann var grátlega nálægt deildartitlinum langþráða vorið 2014 en Manchester City hafði betur að lokum. Rodgers var rekinn í október 2015 og þá kom núverandi stjóri félagsins, Jurgen Klopp, til Liverpool.

Klopp hefur sett mikinn svip á félagið og komið því í þrjá úrslitaleiki í Evrópukeppnum á tíma sínum sem stjóri. Liverpool þurfti aftur að lúta í lægra haldi fyrir Manchester City eftir harða baráttu síðasta vor. Klopp var þá búinn að sýna öllum hvað í hann var spunnið. Ef það eru einhverjir stuðningsmenn Liverpool sem vilja Klopp burt frá Liverpool þá eru þeir fáir.

Á sama tíma er ekki sama vissa meðal stuðningsmanna United um stöðu Solskjær sem stjóra hjá félaginu. Solskjær er með liðið í fimmta sæti deildarinnar sem er svipað og forverar hans undanfarin sex til sjö ár afrekuðu.

Liverpool er langefst í ensku úrvalsdeildinni og hefur einungis tapað tveimur stigum í deildinni á þessari leiktíð. Ótrúlegt afrek en það var einmitt Manchester United sem kom í veg fyrir 100% árangur Liverpool liðsins í stigasöfnun. Fyrri leikur liðanna endaði með 1-1 jafntefli. Það hefur oft verið nefnt þegar kemur að viðureignum þessara liða að staðan í deildinni skipti ekki máli.

Upplifun stuðningsmanna
Fréttaritari ákvað að heyra í þremur Liverpool stuðningsmönnum og tveimur Manchester United stuðningsmönnum og spyrja þá að því hvað kemur upp í hugann þegar viðureign þessara liða er skoðuð. Hvað hafa þessir stuðningsmenn upplifað á sinni ævi þegar kemur að viðureignum þessara félaga. Ástæða þess að þrír Liverpool menn sögðu sína skoðun var einfaldlega sérósk fréttaritara um langt svar frá einum af United-stuðningsmönnunum.

A) Hvaða merkingu hefur þessi viðureign fyrir þig sögulega, hvaða tilfinningar upplifir þú í kringum leiki þessara liða.
B)Hvaða þýðingu hefur leikurinn á morgun fyrir liðin?
C)Spá fyrir leikinn og hvers vegna heldur þú með liðinu?


Aksentije Milisic, 26 ára stuðningsmaður Manchester United:

Fyrir mér eru þessir leikir alltaf þeir stærstu á hverju tímabili í enska boltanum og bara yfir höfuð í heiminum kannski ásamt El Clasico. Þarna mætast tvö sigursælustu lið Englands þar sem alvöru rígur ríkir og hann minnkar aldrei. Það skiptir ekki máli hvernig staðan er í deildinni þegar þessi lið mætast, það getur alltaf allt gerst og fyrir mig sem harðan stuðningsmann Man Utd þá er þetta alltaf fyrsti leikurinn sem maður leitar að á leikjaplaninu þegar það er gefið út. Þegar þú skoðar söguna þá eru til svo margir eftirminnilegir leikir þessara liða, endalaust af góðum leikjum og atburðum sem hægt er að rifja upp.
Maður hefur upplifað allskonar tilfinningar þegar leikir gegn Liverpool eru annars vegar. Fyrir leiki er alltaf blanda af spennu og stressi.

Maður veit hvaða þýðingu það hefur fyrir klúbbinn að vinna Liverpool og vera með montréttinn og það sem gerir þetta svo sérstakt er að það er til svo mikið af stuðningsmönnum Liverpool sem maður þekkir og er tengdur, þess vegna vill maður alls ekki tapa þessum leikjum, það er kannski öðruvísi t.d. í leikjum gegn City, þó að það séu risa leikir líka. Á meðan leik stendur þá eru tilfinningar eins og reiði, gleði, spenna og stress við völd, fer eftir því hvernig gengur í leiknum. Síðan getur það alltaf tekið dágóða stund að ná sér niður eftir þessa leiki og melta þá almennilega.

En það sem gerir þessa leiki svo sérstaka er að þetta er hatrammur rígur tveggja sigursælasta liða á Englandi sem eiga heilann helling af stuðningsmönnum um allan heim. Ég hef einnig farið á Man Utd-Liverpool leik á Old Trafford og þá sá maður ennþá meira hvaða þýðingu þessir leikir hafa. Það er gjörsamlega allt undir, miklu meir en bara þrjú stig.

Leikurinn í dag hefur mikla þýðingu myndi ég segja, fyrir bæði lið. Þó að Liverpool er svo gott sem búið að klára deildina þá er liðið og stuðningsmennirnir með það bak við eyrað að á þessu ótrúlega gengi þeirra þá hefur þeim ekki tekist að vinna United í síðustu tveimur leikjum og United er eina liðið sem þeir hafa ekki unnið á þessu tímabili, sem er ótrúlegt. Því veit ég fyrir víst að þeir vilja gera allt til þess að styrkja stöðu sína enn frekar á toppnum, vinna United á þessu tímabili, halda áfram að vera taplausir í deildinni og gefa því áfram séns að fara taplausir í gegnum tímabilið.

Fyrir United myndi sigur gefa liðinu byr undir báða vængi í baráttunni um Meistaradeildarsætið, ef liðið ætlar að ná því þá má liðið ekki við því að tapa mikið fleiri stigum. Einnig myndi það veita liðinu rosalegt sjálfstraust fyrir framhaldið að vera fyrsta liðið sem vinnur Liverpool á þessu tímabili og bara að vinna Liverpool yfir höfuð, því fylgir alltaf gleði og hellings sjálfstraust.

Pabbi varð hrifinn af United á sínum tíma og ég byrjaði horfa á liðið með honum þegar ég var bara krakki og hef ekki misst af mörgum leikjum síðan. Maður kynnti sér sögu liðsins betur þegar maður varð aðeins eldri og fljótt áttaði ég mig á því hvað þetta er sérstakur klúbbur og hvað hann stendur fyrir.

Mín spá er 1-1 ef við spilum með fimm manna varnarlínu annars 4-1 fyrir Liverpool.


Jóhann Þór Hólmgrímsson, 26 ára stuðningsmaður Liverpool:

Þetta er bara leikurINN! Þegar í þessa leiki er komið stöðvast tíminn. Þetta er stærsti leikur ársins fyrir mér. Þar sem þetta eru nú þau tvö lið sem eiga flesta stuðningsmenn á landinu er þetta eiginlega bara þjóðhátíðardagur þegar þessi lið mætast. Persónulega er ég aldrei að velta leikjum alltof mikið fyrir mér svona í aðdragandanum en um leið og flautað er til leiks fer allt í gang.

Spenna og stress, svo fer það bara eftir því hvernig leikurinn spilast hvort maður sé skælbrosandi og öskrandi af gleði eða reiði. Svo er flautað af og maður nær sér niður og heldur áfram með lífið. Ef illa fer þá bara skrollar maður hratt yfir United statusa. Margir United menn í kringum mann svo það skiptir alltaf máli að vinna þessa leiki til að halda geðheilsunni.

Maður veit það að allir sem koma að þessum leik, byrjunnarliðsmenn, varamenn, þjálfarar og annað starfsfólk liðanna leggja sig extra fram í undirbúning fyrir þessa leiki. Leikurinn í dag skiptir öllu máli fyrir þessi lið. Þó svo Liverpool sé í góðri stöðu í deildinni missteig liðið sig gegn United í fyrri leik liðanna.

Leikmenn liðsins ætla að gera allt sem þeir geta til að koma í veg fyrir að það gerist aftur. Man utd er í baráttunni um Meistaradeildarsæti og mun sigur í þessum leik gefa þeim eitthvað auka sjálfstraust í framhaldinu í baráttunni um 4. sætið.

Valið stóð á milli þessara liða á sínum tíma en ætli það hafi ekki verið ein gjöf sem gerði útslagið, treyja merkt einum ungum ónefndum framherja. Sá hefur verið þekktur undir nafninu Júdas núna í nokkur ár. Núna þegar ég skrifa þetta átta ég mig á því að treyju bölvunin mín byrjaði strax með fyrstu treyju, síðan hef ég átt treyjur meðal annars merktar, Joe Cole, Ryan Babel og Balotelli.

Leikurinn fer 3-2 fyrir Liverpool. United kemst í 2-0 með mörkum frá Maguire og Martial, Van Dijk minnkar muninn á marka mínútunni 43. Salah jafnar metin og Liverpool mun gersamlega liggja á United og Robertson skorar með sleggju mjög seint í leiknum.



Þórbergur Torfason, 65 ára gamall stuðningsmaður Manchester United: (Þar sem að Þórbergur er elsti viðmælandinn bað ég hann um að segja aðeins frá tímunum fyrir aldamót og hvernig hann man þá þegar kemur að þessum tveimur félögum).

Að venju verður athygli meirihluta knattspyrnuáhugafólks á þessum leik þó staða þessara liða í deildinni sé breytt frá því sem var fyrir fáum árum. Frá því ég fór að fylgjast með enska boltanum hafa innbyrðis leikir þessara liða vakið óskipta athygli, ekki bara frá fagurfræðilegu sjónarhorni heldur meira vegna þess að svo sterkir eru straumar stuðningsfólks þessara liða að meira að segja svarthvíta túpusjónvarpið flutti þá yfir Atlantsála þó þeir væru orðnir vikugamlir.

Bjarni Fel var einstaklega laginn við að efla spenninginn með bráðskemmtilegum lýsingum sínum af 10+10 köllum að veltast um völlinn þveran og endilangan oftar en ekki drulluskítugir því ekki voru vellirnir neitt í líkingu við það sem gerist í dag.
Joe Fagan hafði tekist að búa til öldungis frábært lið í Liverpool, lið sem átti ákaflega mikilli velgengni að fagna. Mér fannst alltaf að Bjarna Fel þætti skemmtiegast að lýsa leikjum með Liverpool að slepptu liði Arsenal sem er hans lið, enda ekki neitt sérkennilegt við það, lið með valinn snilling í hverri stöðu.

Ekki man ég hver var þjálfari hjá Man Utd á þessum árum en í liðinu voru þeir snillingar fremstir Bobby Charlton og George Best ásamt fleiri nöfnum sem ég kann ekki að nefna hér.
Liðu svo árin og Liverpool bauð uppá ógleymanleg augnablik. Þar voru endalausir snillingar á borð við Kenny Dalglish, Bruce Grobbelar, Sammy Lee, Ian Rush og margir fleiri sem gerðu liðið að enskum meisturum ár eftir ár. Líklega er Kenny Dalglish eftirminnilegastur vegna þess að síðar átti hann eftir að gera góða hluti sem þjálfari, Gerði til dæmis Blackburn að enskum meisturum öllum að óvörum.

Þar kom að því að tímamót verða hjá liði Man. Utd. Þangað er ráðinn þjálfari sem hafði sýnt góðan árangur í Skotlandi, gert knattspyrnuliðið Aberdeen nánast að stórveldi uppúr engu. Þar er ég að nefna til sögunnar sjálfan Alex Ferguson sem er nafn sem svo sannarlega mun lifa í heimi knattspyrnunnar á Englandi um ókomin ár.

Það sem helst gerði mig að aðdáanda liðs Man.Utd. var hvað þessi náungi bjó til öflugt lið, lið sem maður fylgdist með vaxa nánast leik frá leik. Þarna voru nokkrir galdramenn innan um baráttujaxla ekki ósvipað og hið fornfræga lið Liverpool sem maður þekkti reyndar einungis í sauðalitunum en vissi þó eftir að hafa hlustað á Bjarna Fel nokkurnveginn hvar hver var fæddur og hvejir voru hans nánustu skyldmenni.

Þegar Ferguson tók við liði United voru þar leikmenn á borð við Bryan Robson sem lengi var fyrirliði enska landsliðsins. Unglingastarf liðsins var stóreflt og þegar árin liðu komu margir öflugir leikmenn fram á sjónarsviðið úr akademíu félagsins. Með þann efnivið og svo vel valda leikmenn sem keyptir voru sýndi Ferguson hvers hann var megnugur. Á meðan dalaði lið Liverpool, náði ekki sama flugi og áður.

Munurinn á innbyrðis leikjum Liverpool og United og svo öðrum af stærri liðum er sá hvað mér hefur fundist þessi lið hafa borið mikla virðingu hvort fyrir öðru. Ég hef upplifað þá leiki sem ég hef séð leikna af meiri fagmennsku en til dæmis innbyrðis viðureignir United og Arsenal þar sem oftar en ekki hafa verið háðar styrjaldir í orðsins fyllstu merkingu enda ófá gulu og rauðu spjöldin því til staðfestingar. Auðvitað er barist um boltann allsstaðar á vellinum en harkan er minni, fagmennskan meiri.

Helsta ástæðan fyrir því að ég fór að halda með United var hvað það var áhugavert að fylgjast með þróunarstarfinu hjá Sir Alex Ferguson, sjá hvað hann var lunkinn við að finna réttu týpuna af leikmanni sem félli inní þann hóp sem hann var með hverju sinni. Ég minnist ekki neins leikmanns sem hann festi kaup á en gat svo ekki notað eins og til var ætlast þó aflaust einhver eldheitur Liverpoolaðdáandi geti dregið fram einn eða tvo.

Á sunnudaginn kl. 16:30 vonast ég til að geta sest niður með sonum mínum og horft á Liverpool og Manchester United gera 2-2 jafntefli á Anfield.


Agnar Már Heiðarsson, 46 ára gamall stuðningsmaður Liverpool:

Liverpool -Manchester United er ólíkur öllum öðrum leikjum. Frá því að maður byrjaði að horfa á Kenny Dalglish, Sammy Lee, Bruce Grobelaar og Graeme Souness fyrir allt of mörgum árum síðan hafa þessir leikir verið sérstakir.

Án þess að fara beint í upprunalegar ástæður fyrir rígnum á milli þessara liða, þá hafa þessi lið auðvitað verið miklir keppinautar í gegnum tíðina. Bæði hafa náð árangri á undanförnum áratugum sem hefur skilað sér í töluverðum fjölda áhangenda hérna heima, sem gerir það svo aftur að verkum að gengi liðanna skiptir töluverðu máli. En gengið almennt skiptir svo minna máli heldur en hvernig leikir liðanna innbyrðis fara. Öll statistík fýkur út um gluggann og það er bara leikur erkifjenda og allt getur gerst. Áhangendur bíða með öndina í hálsinum og mikið er undir. Vinnustaðamórall, staða í fjölskylduboðum og jafnvel framgangur rómantískra sambanda.

Það er svakaleg keppni og rígur þarna á milli borganna/liðanna. Þannig að leikir liðanna hafa mjög mikla þýðingu fyrir jafnt leikmenn sem stuðningsmenn. Það breytir engu að staðan í deildinni sé eins og hún er. Það er samt mikilvægt fyrir Liverpool að halda áfram að malla inn stigum þarna á toppnum. Solskjær hefði svo alveg gott af því að ná í fleiri stig. En það vill enginn tapa þessum leik og viðbúið að menn leggi sig fram.

Ætli maður hafi ekki byrjað að að halda með Liverpool þar sem þeir voru að heilla mest á sjónvarpsskjánum í þá daga með framangreindum kempum. Svo hefur liðið og stemmningin haldið manni við efnið síðustu áratugi, ætli megi ekki segja í blíðu og stríðu. Misskemmtilegt að horfa í gegnum árin en það er bara Klopp, kampavín og kavíar í dag.

Liverpool vinnur 3-1 á eftir ef mér skjöplast ekki. Vonandi verður þetta skemmtilegur leikur, í það minnsta fjörugur.


Ingi Torfi Sverrisson, 41 árs stuðningsmaður Liverpool:

Þessir leikir eru stóru stundirnar á hverju timabili. Það er meiri kvíði en spenna því undanfarna áratugi hefur Liverpool gengið illa. Á meðan Manchester United hefur verið óþolandi gott oft a tíðum, montrétturinn verið allur Rauðu djöflanna og mánudagar oft ömurlegir.

Leikurinn dag er ekki eins þýðingarmikill og áður þar sem allir vita gæðamuninn á liðunum í dag. Leikurinn er í raun frekar mikilvægur í ljósi þess að Liverpool gæti farið taplaust í gegnum leiktíðina. Liverpool náði ekki að vinna fyrri leikinn og þarf að bæta fyrir það.

Ég held að Liverpool vinni þennan leik sannfærandi og haldi hreinu enn einu sinni.
Athugasemdir
banner
banner