Það var nóg um að vera í fótboltaheiminum í dag þar sem nokkrir Íslendingar komu við sögu í leikjum dagsins.
Benóný Breki Andrésson var í byrjunarliði Stockport County sem heimsótti varalið Everton og skóp stórsigur á æfingasvæði félagsins.
Benóný gerði sér lítið fyrir og skoraði fernu í 6-2 sigri Stockport.
Í efstu deild norska boltans kom Hilmir Rafn Michaelsson við sögu í tapi toppliðs Viking á heimavelli gegn Bodö/Glimt.
Þetta er annar tapleikurinn í röð hjá Viking sem er núna sjö stigum fyrir ofan Bodö/Glimt í toppbaráttunni, en er búið að spila þremur leikjum meira.
Ásgeir Galdur Guðmundsson kom þá inn af bekknum í markalausu jafntefli Horsens gegn Aarhus Fremad í næstefstu deild í Danmörku. Liðin áttust við í fyrstu umferð á nýju tímabili.
Nítján ára gamall Ólafur Dan Hjaltason var í byrjunarliði Árósa.
Kolbeinn Birgir Finnsson og félagar í Utrecht töpuðu þá æfingaleik gegn Waalwijk á meðan Danijel Dejan Djuric og Logi Hrafn Róbertsson voru í byrjunarliði Istra 1961 sem tapaði naumlega fyrir Wolfsberger frá Austurríki.
Patrik Sigurður Gunnarsson og félagar í Kortrijk töpuðu svo gegn unglingaliði Utrecht.
Rúnar Þór Sigurgeirsson var að lokum í tapliði þegar Willem II mætti Antwerp í æfingaleik.
Everton U21 2 - 6 Stockport County
Viking 2 - 4 Bodö/Glimt
Horsens 0 - 0 Aarhus Fremad
Waalwijk 2 - 1 Utrecht
Istra 1961 0 - 1 Wolfsberger
Kortrijk 0 - 1 Jong Utrecht
Antwerp 2 - 0 Willem II
Athugasemdir