Manchester United er að ganga frá kaupum á brasilíska miðjumanninum Casemiro.
Kaupverðið er sagt vera um 60 milljónir punda en hann er þegar búinn að kveðja liðsfélaga sína í Real Madrid.
Casemiro er einn besti varnartengiliður heims og Erik ten Hag, stjóri Man Utd, vill fá hann til að leysa vandræðin á miðsvæði United.
Þessi þrítugi leikmaður verður einn launahæsti leikmaður United ef hann ákveður að ganga í raðir félagsins. Enska félagið er sagt tilbúið að tvöfalda laun hans og gefa honum fimm ára samning. Hann verði þá hjá félaginu á stórum launum þangað til hann verður 35-36 ára ef hann ákveður að skipta yfir.
Það var talað um það í gær að United ætlaði að drífa sig að ganga frá skiptunum svo Casemiro gæti spilað gegn Liverpool á mánudagskvöld, en það mun ekki ganga eftir. Það þarf að gera og græja ýmislegt og það mun ekki takast í tæka tíð svo hægt verði að skrá Casemiro í hópinn fyrir þann leik. Það er í síðasta lagi hægt að skrá Casemiro í hópinn miðjan dag á þessum föstudegi.
Það er líklegt að hans fyrsti leikur með Man Utd verði gegn Southampton.
Man Utd er á botni ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum á tímabilinu.
Athugasemdir