James Maddison, leikmaður Leicester City á Englandi, er í viðræðum við félagið um nýjan samning
Maddison er 25 ára gamall sóknarsinnaður miðjumaður og verið með bestu mönnum Leicester síðustu ár.
Newcastle United hefur lagt fram tvö tilboð í leikmanninn í sumar en Leicester neitað að selja hann.
Nú vill félagið framlengja samning hans og segir Brendan Rodgers, stjóri félagsins, að það sé í vinnslu.
„Já, ég held það. Ég held að aðilarnir séu að ræða saman. Ég er viss um að félagið vilji framlengja við hann og báðir aðilar verða að komast að samkomulagi," sagði Rodgers.
„James á náttúrulega tvö ár eftir og eðlilega vill félagið vernda eignina. Þetta virkar á báða vegu."
„Stundum fer þetta allt á félagið. Ef að leikmaður vill ekki skrifa undir þá endar þetta í pattstöðu og þá er ég ekkert endilega að tala um James."
„En annars klárlega. James er magnaður leikmaður og auðvitað myndi Leicester njóta góðs af því að halda honum lengur hjá félaginu," sagði Rodgers í lokin.
Athugasemdir