mán 20. maí 2019 21:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Valur níu stigum frá toppliði ÍA
FH, KR og Grindavík með sigra í kvöld
FH lagði Val.
FH lagði Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH fer upp að hlið Blika.
FH fer upp að hlið Blika.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Íslandsmeistarar Vals eru aðeins með fjögur stig.
Íslandsmeistarar Vals eru aðeins með fjögur stig.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
KR tókst að knýja fram sigur.
KR tókst að knýja fram sigur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Beitir varði vítaspyrnu.
Beitir varði vítaspyrnu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grindavík er með átta stig.
Grindavík er með átta stig.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Zeba skoraði sigurmark Grindavíkur.
Zeba skoraði sigurmark Grindavíkur.
Mynd: Grindavík
Hver hefði búist við því að Valur, Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára, yrðu níu stigum á eftir nýliðum ÍA eftir fyrstu fimm umferðirnar í Pepsi Max-deildinni? Svoleiðis er staðan.

Krísa hjá Val?
Valur heimsótti FH í stórleik umferðarinnar í Pepsi Max-deildinni í kvöld. Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var að fara á sinn gamla heimavöll. Hann hefur þjálfað FH þrisvar á sínum þjálfaraferli, nú síðast 2003 til 2007 með frábærum árangri.

Gary Martin er enn úti í kuldanum hjá Val og var ekki í leikmannahópi liðsins í kvöld.

Valsmenn voru að spila ágætlega í fyrri hálfleiknum í Kaplakrika en þeir lentu undir á 34. mínútu þegar Brandur Olsen skoraði úr vítaspyrnu. Lionel Messi gat ekki skorað úr vítaspyrnu fram hjá Hannesi Þór Halldórssyni en Brandur var eitursvalur og sendi Hannes í rangt horn.


Stuttu síðar vildu Valsmenn fá vítaspyrnu en Ívar Orri, dómari, dæmdi ekkert.

Staðan var 1-0 í hálfleik fyrir FH. Valsmenn fengu ótal hornspyrnur í leiknum og tókst þeim að skora úr einni slíkri til að jafna leikinn á 69. mínútu. Eiður Aron Sigurbjörnsson skoraði eftir að Vignir í marki FH mistókst að kýla boltann í burtu. Eiður þurfti síðar að fara meiddur af velli.

Á 76. mínútu skoraði Steven Lennon og kom FH-ingum aftur yfir. Markið var hið glæsilegasta. „Lennon ekki lengi að stimpla sig inn í sumar! Brandur með hornið sem Bjarni skallar út, boltinn dettur á Lennon sem tekur hann viðstöðulaust niðri í nærhornið, alvöru finish!" skrifaði Egill Sigfússon í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.

Valsmenn jöfnuðu strax og aftur skoruðu þeir eftir hornspyrnu. Í þetta skiptið var það Ólafur Karl Finsen, sem átti góðan leik fyrir Val, sem skoraði.

Staðan jöfn þegar tíu mínútur voru eftir. Þessi leikur var frábær skemmtun og stóðst þær væntingar sem voru gerðar til hans. Það var tími fyrir sigurmark og voru það FH-ingar sem fóru glaðari heim. Jákup Thomsen skoraði sigurmark FH á 86. mínútu. „FH komnir yfir í þriðja skiptið í kvöld! Halldór Orri með sendingu á Lennon sem er aleinn, hann hittir boltann illa en boltinn beint á Jákup sem setur hann inn fyrir línuna og kemur FH í 3-2 þegar 5 mínútur eru eftir!" sagði Egill í textalýsingunni.

Valsmenn náðu ekki að svara og lokatölur því 3-2 fyrir FH sem fer upp í þriðja sæti deildarinnr með 10 stig, eins og Breiðablik. Valur er í níunda sæti. Hörmuleg byrjun hjá Val á tímabilinu!


HK næstum því með ótrúlega endurkomu gegn KR
KR fékk HK í heimsókn og náði að landa sigri gegn nýliðunum. Það var þó hægara sagt en gert á endanum.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, gerði nokkrar breytingar fyrir leikinn. Finnur Tómas Pálmason, sem er fæddur 2001, kom inn í byrjunarliðið og vakti það ánægju KR-inga.

KR-ingar voru virkilega flottir í fyrri hálfleiknum í kvöld og leiddu að honum loknum 2-0. Pálmi Rafn Pálmason kom KR yfir og Tobias Thomsen bætti við marki fyrir leikhlé.

Í upphafi seinni hálfleiks skoraði Björgvin Stefánsson þriðja mark KR og héldu einhverjir að þessi leikur væri búinn þarna en annað kom á daginn.

HK fékk vítaspyrnu á 65. mínútu eftir að hinn ungi Finnur Tómas braut af sér. Brynjar Jónasson fór á vítapunktinn en Beitir í marki KR varði frá honum. Þetta átti eftir að vera dýrkeypt fyrir HK.

Þetta átti eftir að vera dýrkeypt því HK skoraði tvisvar undir lokin. Birkir Valur Jónsson og Kári Pétursson skoruðu. Eftir seinna mark HK komust þeir nálægt því að bæta við þriðja markinu. „DAUÐAFÆRI!! Brynjar Jónas fær frían skalla á fjær en setur hann beint á Beiti í marki KR!" skrifaði Þorgeir Leó Gunnarsson í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.

Endurkoman hefði verið rosaleg en því miður fyrir HK þá gekk hún ekki upp. KR er í fjórða sæti með átta stig og HK með fjögur stig í tíunda sæti.


Annar sigur Grindavíkur í röð
Grindavík er komið upp í sjötta sæti deildarinnar eftir annan sigur sinn í röð.

Grindavík tók á móti Fylki suður með sjó og þar var aðeins eitt mark sem skildi liðin að.

Eina markið gerði Josip Zeba á 74. mínútu leiksins „MAAAAAARK!!!!!! Hornspyrna Arons Jó skoppar af allavega tveimur höfðum áður en Zeba kemur boltanum í netið af fjærstönginni," sagði Sverrir Örn Einarsson í beinni textalýsingu á Fótbolta.net þegar Zeba skoraði.

Grindavík náði að landa sigrinum og verður Túfa, þjálfari liðsins, væntanlega mjög sáttur í viðtali eftir leik.

Grindavík er eins og áður segir með átta stig. Fylkir er með fimm stig í áttunda sæti.


Hér að neðan eru úrslit, markaskorarar og textalýsingar.

Grindavík 1 - 0 Fylkir
1-0 Josip Zeba ('74 )
Lestu nánar um leikinn

KR 3 - 2 HK
1-0 Pálmi Rafn Pálmason ('20 )
2-0 Tobias Bendix Thomsen ('45 )
3-0 Björgvin Stefánsson ('54 )
3-0 Brynjar Jónasson ('65 , misnotað víti)
3-1 Birkir Valur Jónsson ('86 )
3-2 Kári Pétursson ('87 )
Lestu nánar um leikinn

FH 3 - 2 Valur
1-0 Brandur Hendriksson Olsen ('34 , víti)
1-1 Eiður Aron Sigurbjörnsson ('69 )
2-1 Steven Lennon ('76 )
2-2 Ólafur Karl Finsen ('79 )
3-2 Jákup Ludvig Thomsen ('86 )
Lestu nánar um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner