Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   fös 20. maí 2022 09:00
Brynjar Ingi Erluson
Dybala vill ekki fara til Tottenham - Bíður eftir tilboði frá Inter
Paulo Dybala
Paulo Dybala
Mynd: EPA
Argentínski sóknartengiliðurinn Paulo Dybala hefur engan áhuga á því að ganga í raðir enska úrvalsdeildarfélagsins Tottenham Hotspur samkvæmt frétt spænska miðilsins, AS.

Dybala mun yfirgefa Juventus í næsta mánuði er samningur hans rennur út en hann kvaddi stuðningsmenn félagsins eftir 2-2 jafnteflið gegn Lazio á dögunum.

Argentínumaðurinn vildi ekki fara frá félaginu en samningaviðræður sigldu í strand og var því ljóst að leiðir myndu skilja.

Fabio Paratici, sem er yfirmaður knattspyrnumála hjá Tottenham, vann áður fyrir Juventus og langaði að losna við Dybala árið 2019 en Tottenham og Manchester United höfðu þá mikinn áhuga á að fá hann en ekkert varð af komu hans í ensku úrvalsdeildina.

Enskir fjölmiðlar hafa ritað um framtíð Dybala síðustu daga. Antonio Conte, stjóri félagsins, er sagður hafa mikinn áhuga á að fá Dybala, en Dybala hefur útilokað að ganga til liðs við félagið samkvæmt AS.

„Tottenham er ekki að spá í að fá hann," sagði fréttamaðurinn vinsæli Fabrizio Romano um áhuga Tottenham á Dybala og má því útiloka þennan möguleika algerlega.

Bíður eftir tilboði frá Inter

Ítalskir fjölmiðlar eru fullvissaðir um það að Dybala ætli sér að ganga í raðir Inter.

Dybala hefur verið í viðræðum við félagið síðustu vikur og bíður nú eftir formlegu tilboði en hann er sagður fá 7 milljónir evra í árslaun.

Leikmaðurinn áttar sig sömuleiðis á því að hann slítur öllu sambandi við stuðningsmenn Juventus ef hann gengur í raðir Inter en mikill fjandskapur er á milli stuðningsmanna liðanna.
Athugasemdir
banner
banner