Stefán Ingi Sigurðarson var langbesti leikmaður Sandefjord í 6-0 risasigri liðsins á Kristiansund í norsku úrvalsdeildinni í dag, en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í fyrri hálfleik.
Blikinn hefur átt mjög gott tímabil með Sandefjord og er núna að blanda sér í baráttu um markakóngstitilinn.
Hann kom Sandefjord í forystu á 8. mínútu með góðum skalla og tæpum fimmtán mínútum síðar skoraði hann auðvelt og einfalt mark með bringunni, alveg við marklínuna.
Þrennan var fullkomnuð á 39. mínútu með hörkuskoti fyrir utan teiginn, sem var áttunda mark hans í deildinni á tímabilinu. Aðeins þrír leikmenn hafa skorað fleiri mörk en hann og er hann nú þremur mörkum frá Daniel Karlsbakk, sem er markahæstur með 11 mörk.
Stefán og Sandefjord eru í 6. sæti norsku deildarinnar með 24 stig eftir sigur dagsins.
Ísak Snær Þorvaldsson, sem gekk í raðir Lyngby á láni frá Rosenborg á dögunum, skoraði í fyrsta deildarleik sínum með danska liðinu er það vann 2-0 sigur á Breka Baldurssyni og félögum í Esbjerg.
Framherjinn lék æfingaleik með Lyngby á dögunum og kom inn á í sínum fyrsta keppnisleik í dag.
Hann tryggði sigurinn með laglegu marki rúmum tuttugu mínútum eftir að hafa komið inn á. Góð byrjun hjá Ísaki og Lyngby í 1. umferð dönsku B-deildarinnar. Breki var á bekknum hjá Esbjerg en kom ekki við sögu.
Daníel Leó Grétarsson var í vörn SönderjyskE sem gerði 1-1 jafntefli við AGF í dönsku úrvalsdeildinni og þá kom Gísli Eyjólfsson inn af bekknum hjá Halmstad sem gerði markalaust jafntefli við Häcken í sænsku úrvalsdeildinni.
Athugasemdir