Davies, Dibling, Wharton, Zirkzee, Tah og fleiri góðir koma við sögu
   mið 20. september 2023 18:45
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: Afturelding og Vestri í ágætri stöðu
Lengjudeildin
Ásgeir Marteinsson skoraði eitt og átti þátt í öðru
Ásgeir Marteinsson skoraði eitt og átti þátt í öðru
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Omar Sowe heldur einvíginu á lífi
Omar Sowe heldur einvíginu á lífi
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Silas Songani skoraði sigurmark Vestra gegn Fjölni
Silas Songani skoraði sigurmark Vestra gegn Fjölni
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Afturelding og Vestri komu sér í ágætis stöðu eftir góða sigra í fyrri leikjunum í undanúrslitum umspils Lengjudeildarinnar í kvöld.

Leiknir R. 1 - 2 Afturelding
0-1 Rasmus Steenberg Christiansen ('24 )
0-2 Ásgeir Marteinsson ('76 )
1-2 Omar Sowe ('84 )
Lestu um leikinn

Afturelding lagði Leikni að velli, 2-1, á Domus-Novavellinum í Breiðholti.

Heimamenn í Leikni voru sterkir í byrjun leiks. Róbert Quental féll í teignum strax á 1. mínútu leiksins, en Ívar Orri Kristjánsson, dómari leiksins, hristi bara hausinn og lét leikinn halda áfram.

Stuttu síðar komst Daníel FInns Matthíasson í gott færi eftir góða sendingu Davíðs Júlíans Jónssonar, en skot Daníels rétt framhjá markinu.

Á 24. mínútu dró til tíðinda. Rasmus Christiansen skoraði þá fyrir gestina. Afturelding fékk hornspyrnu sem Ásgeir Marteinsson kom inn í teiginn. Þar skapaðist mikill vandræðagangur sem endaði með því að Rasmus reis manna hæst og stangaði boltann í netið. Fyrsta mark í sögu umspilsins.

Afturelding fór með forystu inn í hálfleikinn eftir fremur kaflaskiptan fyrri hálfleik. Leiknismenn voru meira með boltann, án þess að gera mikið við hann.

Ivo Braz fékk ágætis færi í byrjun hálfleiksins en skot hans hafnaði ofan á þverslánni og aðeins sex mínútum síðar voru gestirnir nálægt því að gera sjálfsmark er Gunnar Bergmann ætlaði að hreinsa en sparkaði í Yevgen Galchuk.

Gestirnir vildu fá vítaspyrnu á 64. mínútu er Elmar Kári Enesson Cogic var tekinn niður í teignum, en eins og í fyrri hálfleik þá hristi Ívar Orri hausinn og dæmdi ekkert.

Þremur mínútum síðar komust Leiknismenn nálægt því að jafna er Róbert Hauksson stangaði fyrirgjöf Daníels í átt að marki en Yevgen varði stórkostlega.

Aftur var hætta í teig Leiknismanna er Omar Sowe kom sér í geggjað færi en Yevgen keyrði á hann og varði í horn. Leiknismenn komu sér í annað færi úr hornspyrnunni en aftur varði Yevgen, sem hélt Aftureldingu á floti.

Afturelding tvöfaldaði forystuna á 76. mínútu. Oliver Jensen gerði vel í teignum, lagði boltann út á Ásgeir sem tók skotið og sendi markvörðinn í vitlaust horn. Virtist hafa farið af varnarmanni og breytt um stefnu, en gestirnir tóku því fagnandi.

Sowe tókst að halda lífi í einvíginu er hann minnkaði muninn sex mínútum fyrir leikslok. Sowe hafði reynt nokkur skot en leikmenn Aftureldingar komust fyrir öll áður en hann fékk boltann aftur í aðeins betri stöðu og kláraði vel.

Lokatölur í Breiðholti, 2-1, Aftureldingu í vil sem fer með ágætis stöðu í síðari leikinn.

Songani gerði eina mark Vestra

Vestri lagði Fjölni að velli, 1-0, á Olísvellinum á Ísafirði.

Vestri 1 - 0 Fjölnir
1-0 Silas Dylan Songani ('29 )
Lestu um leikinn

Vestramenn voru líklegri til að skora í byrjun leiks. Liðið fékk nokkur hálf færi, en fyrsta hættulega færið kom þegar Silas Songani skallaði fyrirgjöf Elmars Atla Garðarsson í fangið á Sigurjóni Daða Harðarsyni.

Sex mínútum síðar kom sigurmark leiksins og var það Songani sem gerði það og eftir smá vesen í vörn Fjölnis. Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði Fjölnis, skallaði til baka á Sigurjón, sem var fyrir utan teig og gat því ekki handsamað boltann. Hann setti boltann út í loftið og var það Benedikt Warén sem fékk boltann, kom honum fyrir á Songani, sem í þetta sinn, stangaði hann í netið.

Vestri var í heildina betra liðið í fyrri hálfleiknum en Fjölnismenn unnu sig inn í hann. Vestri gat skorað tvö mörk en sætti sig við eitt.

Heimamenn komu sér í fína sénsa á síðasta stundarfjórðungnum en vantaði upp á þennan umtala herslumun. Það var minna um hættuleg færi eftir það. Vestri fagnar 1-0 sigri, sem hefði getað verið stærri og gæti það kostað þegar liðin mætast öðru sinni á Extra-vellinum í Grafarvogi á sunnudag.


Athugasemdir
banner
banner
banner