Kristall Máni Ingason leikur fyrir Sönderjyske í efstu deild danska boltans og er kominn með eitt mark eftir átta leiki á deildartímabilinu.
Hann var lykilmaður í liðinu í fyrra þar sem hann skoraði 8 mörk og gaf 7 stoðsendingar í 28 deildarleikjum í næstefstu deild og hjálpaði Sönderjyske þannig upp í efstu deild.
Hann hefur verið að leika sem framherji hjá Sönderjyske sem hann telur þó ekki vera sína bestu stöðu á vellinum, nokkrum árum eftir að FC Kaupmannahöfn reyndi að breyta honum í hægri bakvörð.
„FCK vildi breyta mér í hægri bakvörð því félagið hafði mjög mikla trú á mér í þeirri stöðu, en ég vildi það ekki," sagði Kristall Máni í stuttu viðtali við Tipsbladet. „Ég vildi spila í áttunni eða tíunni og þess vegna ákvað ég að fara frá félaginu."
Kristall fann sig ekki í Kaupmannahöfn og sneri aftur til Víkings R. á lánssamningi til að koma sér aftur af stað. Þau skipti gengu fullkomlega upp og er Kristall þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri.
„Ég var ekki á besta staðnum andlega og vildi fara aftur heim til Íslands til að byggja mig aftur upp. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið leyfi frá FCK til að fara aftur heim.
„Ég lenti í leiðinlegum meiðslum en ég lærði margt á dvöl minni í Kaupmannahöfn. Ég naut þess að spila með leikmönnum á borð við Rasmus Höjlund og Mohamed Daramy.
„Í dag er ég notaður sem framherji sem er heldur ekki mín staða en ég reyni að gera mitt besta. Ég hef ekki fengið mörg færi til að skora úr á tímabilinu og það er erfitt að skora mörk þegar liðið er í harðri fallbaráttu.
„Ég er ekki þessi týpíski framherji því ég get spilað út um allt. Mér finnst gaman að spila sem nía en ég er í frjálsara hlutverki heldur en aðrir framherjar."
04.12.2019 21:00
Kristall Máni: Stefni að sjálfsögðu á að komast í aðalliðið hjá FCK
14.05.2021 14:30
Arnar útskýrir hvers vegna Kristall spilaði djúpur í fyrra
Athugasemdir