þri 21. janúar 2020 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Napoli kaupir landsliðsfyrirliða Kósovó (Staðfest)
Mynd: Getty Images
Napoli er búið að ganga frá félagaskiptunum á varnarmanninum Amir Rrahmani.

Rrahmani er 25 ára gamall og gengur í raðir Napoli frá Hellas Verona, sem eru nýliðar í Serie A deildinni. Hann er landsliðsfyrirliði Kósovó og hefur gert 5 mörk í 29 A-landsleikjum.

Napoli greiðir rúmlega 15 milljónir evra fyrir varnarmanninn sem mun þó leika fyrir Verona að láni út tímabilið. Samkvæmt Sky á Ítalíu skrifaði Rrahmani undir fimm ára samning.

Rrahmani er nýkominn í ítalska boltann eftir að hafa verið keyptur til Verona síðasta sumar frá Dinamo Zagreb, fyrir 2 milljónir evra.

Napoli hefur gengið herfilega á tímabilinu og er liðið óvænt í ellefta sæti deildarinnar, tveimur stigum eftir Verona.
Athugasemdir
banner