Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 21. maí 2020 16:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óskar Hrafn um áhættusaman fótbolta: Mín leið er þessi leið
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðablik.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðablik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Anton Ari er markvörður Blika.
Anton Ari er markvörður Blika.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn Þorvaldsson er á leið inn í sitt fyrsta tímabil sem þjálfari Breiðabliks í Pepsi Max-deildinni. Það er óhætt að segja að spennandi verði að fylgjast með Blikunum í sumar.

Óskar byrjar yfirleitt með þriggja manna varnarlínu og vill hann að markvörðurinn, sem í sumar verður Anton Ari Einarsson, taki mikinn þátt í spilinu. Anton mun koma mikið og langt út úr markinu til að taka þátt í spilinu.

Óskar mætti í Dr. Football hlaðvarpið á dögunum og ræddi þar við fyrrum markvörðinn Hjörvar Hafliðason um það af hverju hann vill að markvörðurinn komi langt út úr markinu.

„Það gefur okkur auka mann í sókn, það gerir það að verkum að við getum mögulega fært mann úr öftustu línu," sagði Óskar, en þá benti Hjörvar á það honum finnst þetta alltof áhættusamur fótbolti fyrir lítil verðlaun.

„Hvað eru lítil verðlaun? Mögulega getur Anton dregið að sér sóknarmann sem gerir það að verkum að svæðið bak við hann opnar, sem gerir það að verkum að miðjan hjá hinum þarf að bregðast við, sem gerir það að verkum að allt liðið þeirra fer á hreyfingu. Ef það eru bara tveir aftast þá væri auðveldara að pressa, þá væri auðveldara að loka svæðum. Ef það eru þrír þá erum við einum manni færri á bak við fyrstu línu hjá andstæðingunum. Með því að færa hann upp þá metum við það þannig að það er auðveldara hjá okkur að vera í yfirtölu hvar sem við erum með boltann."

„Ég er auðvitað sammála því að þetta er mjög áhættusamt og við höfum fengið þetta í andlitið. Það getur vel verið að það gerist í sumar, en það er bara allt í lagi."

Það verður mikið undir hjá Blikum í sumar, Evrópupeningar til dæmis. Óskar segir að þrátt fyrir það þá sé hægt að leyfa sér að spila svona áhættusaman fótbolta. „Það er alveg hægt og það verður að vera hægt. Ég ætla bara að áskila mér rétt til þess. Það eru ekki allir sem eru hrifnir af honum, það eru ekki allir sem hrífast af honum, en mín leið er þessi leið. Fyrir mér meikar þetta sens, það meikar sens að markvörðurinn komi út og við spilum frá marki. Ég sé þetta ekki öðruvísi."

Sjá einnig:
Damir um leikkerfi Breiðabliks: Erfitt að aðlagast því í byrjun


Athugasemdir
banner
banner
banner