þri 21. júní 2022 22:20
Ívan Guðjón Baldursson
Staðfesti viðræður við Galtier: Ræddum ekki við Zidane
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon

Nasser Al-Khelaifi, forseti Paris Saint-Germain, svaraði spurningum Le Parisien í dag og talaði meðal annars um yfirvofandi þjálfaraskipti hjá félaginu þar sem Mauricio Pochettino verður rekinn.


Zinedine Zidane var lengi vel orðaður við þjálfarastöðuna hjá PSG og var útlit fyrir að Frakkinn hafi hafnað starfstilboði frá Frakklandsmeisturunum.

Al-Khelaifi segir svo ekki vera, PSG hafi aldrei verið í viðræðum við Zidane heldur hafi annar maður komið sterklega til greina sem félagið er nálægt að landa.

„Ég elska Zidane en við höfum aldrei rætt við hann um þjálfarastöðuna. Það eru mörg félög og landslið sem hafa áhuga á honum - en ekki við," sagði Al-Khelaifi við Le Parisien.

„Það er ekkert leyndarmál að við erum í viðræðum við Galtier. Hann hentar best fyrir þann leikstíl sem við viljum spila hérna. Vonandi komumst við að samkomulagi sem fyrst."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner