Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 22. janúar 2023 11:10
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Adam Páls: Hefði viljað stærra hlutverk en Arnar var með réttu svörin
Adam Ægir Pálsson er genginn í raðir Vals.
Adam Ægir Pálsson er genginn í raðir Vals.
Mynd: Valur
Adam lyfti bikurum hjá Víkingi en hefði þó viljað fleiri spilmínútur.
Adam lyfti bikurum hjá Víkingi en hefði þó viljað fleiri spilmínútur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á föstudag var það staðfest að Valur hefði keypt Adam Ægi Pálsson, stoðsendingakóng Bestu deildarinnar í fyrra, frá bikarmeisturum Víkings. Adam fór á kostum með Keflavík í fyrra þar sem hann var á láni.

Hann var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net.

„Víkingur og Valur náðu saman um kaupverð og ég tók fund. Þetta gerðist nokkuð hratt, ég vissi ekki að ég væri að fara á mánudaginn en svo var ég búinn að taka fundi og hugsaði þetta vandlega í samráði við fjölskyldu mína áður en tekin var ákvörðun," segir Adam.

„Valur er eitt stærsta félag landsins, þjálfarinn (Arnar Grétarsson) er mjög spennandi. Hann hefur gert mjög góða hluti með lið sem eru ekki með sama fjárráð og Valur og ég er mjög spenntur að vinna með honum. Hann gerði mann eins og Nökkva að töluvert betri leikmanni. Svo er Siggi Höskulds og það er svo mikið sem spilar inní."

„Svo snýst þetta um það hvar ég get blómstrað sem mest, hvar get ég verið ég sjálfur. Í Keflavík í fyrra fékk ég að vera ég sjálfur og það skilaði sér. Siggi Raggi, sem er einn besti þjálfari á landinu að mínu mati, leyfði mér að vera bara ég sjálfur. Þegar ég hitti Arnar Grétars fann ég að það væri rétti maðurinn til að vinna með."

Adam er 24 ára sóknarmaður sem fékk ekki stórt hlutverk þann tíma sem hann var hjá Víkingi. Hann var mikið á bekknum og var tvisvar lánaður til Keflavíkur. Hann lítur samt mjög jákvætt á tíma sinn í Fossvoginum.

„Mér fannst ég eiga skilið fleiri spilmínútur og vera með stærra hlutverk, mér fannst ég verðskulda það með því að æfa vel, vera faglegur og halda áfram. Stundum er það bara þannig að hlutirnir henta ekki. Ég er þvílíkt sáttur með minn tíma hjá Víking, ég fór í Víkina í gær og kvaddi strákana. Það var þvílíkt erfitt og það féllu tár. Ég er búinn að mæta mig mikið sem leikmaður og þroskast sem persóna í Víking. Ég lít til baka á þetta sem frábæran tíma," segir Adam.

Adam segist oft í fyrra hafa rætt við Arnar Gunnlaugsson, þjálfara Víkings, um takmarkað hlutverk sitt í liðinu.

„Hann var oftast með réttu svörin, eins og þið hafið séð í viðtölum. Ég treysti honum algjörlega fyrir að taka réttar ákvarðanir. Ég var kannski ekki í stóru hlutverki en við unnum tvöfalt og unnum nánast hvern einasta leik. Það er erfitt að breyta sigurliði, ofan á það var Kristall á undan mér sem er helvíti góður leikmaður," segir Adam Ægir Pálsson.

Í þættinum er skemmtilegt Twitter myndband hans krufið og rætt nánar um skiptin.
Útvarpsþátturinn - Adam Páls, íslensk tíðindi og Arsenal fær rödd
Athugasemdir
banner
banner