
PSG W 0 - 1 Wolfsburg W
0-1 Dominique Janessen ('62 )
Rautt spjald: Elisa De Almeida , PSG W ('61)
PSG og Wolfsburg mættust í síðustu viðureign átta liða úrslitanna í Meistaradeild kvenna í kvöld.
Sveindís Jane Jónsdóttir byrjaði á bekknum hjá Wolfsburg en kom inn á þegar rúmar 10 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Berglind Björg Þorvaldsdóttir var ekki í leikmannahópi PSG.
Leikurinn var nokkuð lokaður en það dró til tíðinda eftir klukkutíma leik en þá fékk Wolfsburg vítaspyrnu eftir að Elisa De Almeida varnarmaður PSG fékk boltann í höndina eftir hornspyrnu.
Hún fékk að líta gula spjaldið fyrir það og þar með rautt en hún hafði fengið gult spjald í fyrri hálfleiknum fyrir að öskra á aðstoðardómarann fyrir að fá ekki innkast.
Dominique Janessen skoraði úr vítinu að miklu öryggi og tryggði Wolfsburg 1-0 sigur á útivelli. Síðari leikurinn fer fram í Þýskalandi á fimmtudaginn næsta.
Um helgina fer fram gríðarlega stór leikur í Þýskalandi þegar Íslendingaliðin Bayern Munchen og Wolfsburg eigast við. Wolfsburg er með tveggja stiga forystu á Bayern.