Everton er eitt þeirra félaga sem mótmælti Ofurdeildinni hvað harðast eftir að áform um hana voru staðfest.
Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, tók undir mótmælin og tjáði sig um Ofurdeildina.
„Ég hélt að þetta væri brandari. Ég fór í viðtal útaf Ofurdeildinni fyrir nokkrum vikum og sagði þá að þetta væri ekki raunhæfur möguleiki," sagði Ancelotti.
„Íþróttamenningin í Evrópu er öðruvísi heldur en í Ameríku. Ég er ekki að segja að ein leið sé rétt og önnur röng, þetta eru einfaldlega mismunandi menningar. Í Ameríku snýst þetta meira um skemmtanagildi á meðan í Evrópu snýst þetta meira um ástríðuna fyrir úrslitunum.
„Það er rétt að fótbolti er íþrótt sem snýst um peninga, en það er rangt að fótbolti snúist eingöngu um peninga. Fótbolti er fyrst og fremst íþrótt."
Ancelotti tók við Everton í desember 2019 og er markmiðið sett á að ná Evrópusæti í úrvalsdeildinni í vor.
Farhad Moshiri, eigandi Everton, kallaði eftir því að Ofurdeildarliðin sex úr ensku úrvalsdeildinni fengu dæmd refsistig.
Ancelotti hefur stýrt fjórum af þeim tólf félögum sem vildu stofna Ofurdeildina, auk FC Bayern og PSG sem samþykktu það ekki.
Athugasemdir