Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 22. júní 2021 11:30
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Mourinho: Þetta er ekki flókið, þú spilar bara Grealish
Grealish á landsliðsæfingu.
Grealish á landsliðsæfingu.
Mynd: EPA
Jose Mourinho.
Jose Mourinho.
Mynd: Getty Images
José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, velkist ekki í vafa um að Jack Grealish þurfi að koma inn í byrjunarlið Englands fyrir leikinn gegn Tékklandi í kvöld sem er síðasti leikur liðsins í D-riðli.

Ákall hefur verið á Englandi og nánast um víða veröld eftir því að sjá Villa-manninn í stuttu sokkunum í enska liðinu en hann kom inn á sem varamaður í markalausa jafnteflinu gegn Skotlandi í síðasta leik.

Mourinho er sérfræðingur íþróttaútvarpsstöðvarinnar talkSPORT á meðan EM alls staðar stendur yfir en í morgun fór hann ítarlega yfir það hvernig hann myndi stilla upp miðju enska liðsins og framlínunni í kvöld.

„Enska liðið hefur verið að spila vel og ég studdi heilshugar að byrja með bæði Kalvin Phillips og Declan Rice á móti Króatíu en nú þarf liðið eitthvað annað. Liðið breimar ekki af sjálfstrausti og er aðeins of passíft og þá þarf að spila þeim leikmanni sem felur sig ekki," segir Mourinho og leikmaður sem aldrei er í felum er Jack Grealish.

„Grealish gerir kannski mistök og missir boltann en hann felur sig ekki í leikjum. Hann vill fá boltann og það sést á honum á vellinum. Á móti Skotlandi var hann að taka menn á, fiska aukaspyrnur og færa liðið framar. Þetta er það sem enska liðið þarf á að halda."

„Ef Mason Mount er frá vegna Covid-19 ráðstafanna eftir Billy Gilmour-atvikið þá er þetta ekki flókið, þú spilar bara Jack Grealish í tíunni og gefur honum frjálsfræði til að færa sig út til hliðanna og búa eitthvað til fyrir Harry Kane," segir Mourinho.

Þetta er ekki eina breytingin sem Portúgalinn vill sjá á enska liðinu fyrir kvöldið. Hann vill ferskari fætur og meiri léttleika til að brjóta hlutina upp og bendir meðal annars á hinn 17 ára gamla Jude Bellingham.

„Ég vil sjá Bellingham á miðjunni. Það þýðir að þarf að taka erfiða ákvörðun og taka leikmenn sem hafa spilað vel út. En, ef ég ætti að velja á milli Phillips eða Rice þá fer Phillips á bekkinn og Rice yrði með Bellingham og Grealish á miðjunni," segir Mourinho sem myndi einnig geyma Phil Foden á bekknum í kvöld gegn Tékkum.

„Ég myndi vilja sjá Sterling eða Rashford á öðrum hvorum kantinum eða bara báða í byrjunarliðinu. England þarf aðeins að komast aftur fyrir línurnar í staðinn fyrir að leyfa mótherjanum alltaf að komast í varnarstöðu og horfa framan í sóknarmennina. Foden er ekki tilvalinn í þennan leik í kvöld," segir José Mourinho.


Athugasemdir
banner
banner
banner