Rabiot nálgast Man Utd - Mount til sölu - Branthwaite fær stórbættan samning - Kante hefur náð samkomulagi við West Ham
   lau 22. júní 2024 16:00
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Valur skoraði fimm í martraðaleik fyrir Eskelinen
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vestri 1 - 5 Valur
0-1 Jónatan Ingi Jónsson ('16)
1-1 Benedikt V. Warén ('31)
1-2 Patrick Pedersen ('57)
1-3 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('64)
1-4 Lúkas Logi Heimisson ('75)
1-5 Jónatan Ingi Jónsson ('93)

Lestu um leikinn: Vestri 1 -  5 Valur

Vestri tók á móti Val í fyrsta leik dagsins í Bestu deild karla og tóku gestirnir af Hlíðarenda forystuna á sextándu mínútu. Vestri tapaði boltanum þá illa á miðjunni og skoraði Jónatan Ingi Jónsson með góðu skoti utan vítateigs eftir sendingu frá Sigurði Agli Lárussyni.

Þegar tók að líða á fyrri hálfleikinn lifnaði yfir heimamönnum og fengu þeir nokkur tækifæri áður en Benedikt V. Warén skoraði á 31. mínútu, eftir að hafa sloppið í gegn og með góðri stungusendingu frá Pétri Bjarnasyni.

Valsarar juku pressuna á ný eftir jöfnunarmarkið á meðan heimamenn beittu skyndisóknum en staðan var jöfn, 1-1, í leikhlé.

Gæðamunur liðanna skein í gegn í síðari hálfleik þegar Valsarar tóku yfir leikinn. Valur skoraði tvö mörk eftir mistök hjá William Eskelinen, sem gaf tvær lélegar sendingar sem urðu að mörkum.

Fyrri sendingin fór út í innkast ofarlega á vellinum og skoruðu Valsarar beint í kjölfarið þegar Patrick Pedersen skallaði nákvæma fyrirgjöf Tryggva Hrafn Haraldssonar í netið, áður en slök sending varð til þess að Valsarar unnu boltann og í þetta skiptið endurlaunaði Patrick greiðann með að gefa stoðsendingu á Tryggva Hrafn.

Staðan var því orðin 1-3 á 64. mínútu og gerði Vestri þrefalda skiptingu tíu mínútum síðar, en fékk mark í andlitið beint í kjölfarið. Aftur gerði Eskelinen hrikaleg mistök, þar sem hann kom út af marklínunni og hitti ekki boltann sem datt fyrir Lúkas Loga Heimisson. Lúkas Logi lenti ekki í vandræðum með að skora í autt markið og sigurinn svo gott sem innsiglaður.

Jónatan Ingi bætti fimmta marki Valsara við í uppbótartíma eftir glæsilegt einstaklingsframtak og urðu lokatölur 1-5 fyrir Val, eftir martraðaleik hjá William Eskelinen.

Valur er í öðru sæti Bestu deildarinnar eftir þennan sigur, með 25 stig úr 12 leikjum.

Vestri er í fallbaráttu, með 10 stig eftir 11 umferðir.
Athugasemdir
banner
banner