Enski framherjinn Tammy Abraham er að ganga til liðs við Aston Villa fyrir um 20 til 25 milljónir evra.
Abraham er 28 ára gamall og gerir samning til 2030. Hann gengur til liðs við Aston Villa í annað sinn á ferlinum eftir að hafa gert frábæra hluti á láni á Villa Park tímabilið 2018-19 í Championship deildinni.
Abraham mistókst að halda byrjunarliðssæti hjá Roma eftir brottför José Mourinho úr þjálfarastarfinu, en hann varð mikilvægur hlekkur fyrir Besiktas í tyrkneska boltanum þar sem hann gerði 13 mörk í 26 leikjum auk þess að gefa þrjár stoðsendingar.
Hinn 19 ára gamli Yasin Özcan fer einnig til Besiktas sem partur af kaupverðinu, en það er tæpt ár síðan hann var keyptur til Aston Villa úr röðum Kasimpasa.
Özcan er varnarmaður sem þótti gríðarlega mikið efni, en honum hefur mistekist að hrífa þjálfarateymið hjá Villa eftir félagaskiptin.
Fabrizio Romano hefur sett „here we go!" stimpilinn sinn á félagaskiptin.
Abraham á að fylla í skarðið fyrir Donyell Malen sem fór til Roma á dögunum.
Athugasemdir


