Landsliðskonan Guðrún Arnardóttir var á dögunum kynnt sem nýr leikmaður Hammarby í sænsku Damallsvenskan. Varnarmaðurinn kemur til félagsins frá Braga þar sem hún var í tæpt hálft ár áður en hún fékk samningi sínum rift.
Hún er nú mætt aftur til Svíþjóðar en þar hefur hún leikið bæði með Rosengård og Djurgården. Hún ræddi við Fótbolta.net um félagaskiptin.
Hún er nú mætt aftur til Svíþjóðar en þar hefur hún leikið bæði með Rosengård og Djurgården. Hún ræddi við Fótbolta.net um félagaskiptin.
„Þetta kom þannig til að ég var búin að rifta samningi mínum við Braga og var að skoða mín mál og hvað ég vildi gera næst. Ég hélt öllum möguleikum opnum, skoðaði hvaða möguleikar voru erlendis en pældi líka í því hvort mig langaði kannski bara að koma heim, spila með íslensku liði og byrja að vinna með fótboltanum. Ég ákvað að gefa mér tíma í að taka ákvörðun sem ég yrði sátt með og ekki flýta mér með neitt," segir Guðrún.
Skagamaðurinn Arnór Smárason, íþróttastjóri kvennaliðs Hammarby, átti stóran þátt í að Guðrún samdi við Hammarby.
„Það var þannig að Arnór Smára heyrði í Gylfa umboðsmanninum mínum og sagði honum að Hammarby hefði áhuga á að fá mig. Ég var með önnur félög á borðinu á sama tíma, bæði erlendi og íslensk, og var að vega og meta hvað mér þætti mest spennandi og hvað það var sem mig langaði."
„Ég átti þá samtal með Arnóri um klúbbinn, metnað klúbbsins, umgjörð og sýn. Eftir það átti ég einnig samtal við þjálfara liðsins og hvernig hann sæi hlutina fyrir sér. Það er mikill metnaður í þeim báðum og í klúbbnum og það var eitthvað sem heillaði mig mikið. Það er mikill metnaður en á sama tíma mikið hjarta í fólki innan klúbbsins og stuðningsfólkinu sem er alveg yfirburðar! Það voru þessir hlutir sem á endanum fengu mig til að ákveða að velja Hammarby."
Fann að hún myndi aldrei blómstra í því umhverfi
En af hverju fór Guðrún frá Braga? Þann 30. desember gaf Braga út að Guðrún væri farin frá félaginu, samkomulag hefði náðst um riftun á samningi. Sagt var að Guðrún og tvær aðrar hjá Braga væru að yfirgefa félagið af persónulegum ástæðum.
„Braga var einfaldlega ekki umhverfi sem hentaði mér. Það var ekkert sem kom upp á heldur var það bara meira þannig að umhverfið hentaði mér ekki og með tímanum fann ég að þetta væri umhverfi sem ég myndi aldrei ná að blómstra í. Ég var byrjuð að missa aðeins leikgleðina og fann að ég myndi ekki ná að vera besta útgáfan af sjálfri mér á þessum stað. Ég var búin að ræða við stjórnendur í einhvern tíma um hvernig mér liði og átti nokkur mjög hreinskilin og viðkvæm samtöl um að ég sæi ekki fram á að geta blómstrað og þar af leiðandi myndi ég heldur ekki geta gefið klúbbnum það sem hann vænti af mér," segir Guðrún.
Lærði hvað hún kann að meta
Hún segist ekki sjá eftir því að hafa samið við portúgalska félagið.
„Þrátt fyrir að þetta hafi ekki verið umhverfi fyrir mig og dvölin hafi verið stutt sé ég ekki eftir það að hafa samið. Ég fór til Braga tilbúin í nýtt ævintýri og þó svo það hafi ekki verið ævintýrið sem ég vonaðist eftir lærði ég heilmikið af dvölinni. Ég lærði hvað það er sem ég kann að meta og þarf til að geta blómstrað, hvað það er sem ég er að leitast eftir og líka hvað ég á ofboðslega gott fólk í kringum mig sem styður mig í að fara þær leiðir sem lætur mér líða vel þó svo það geti verið erfitt að komast þangað. Þannig þótt þetta hafi ekki verið ævintýrið sem ég óskaði eftir fór ég þaðan full af lærdómi."
Verið toppklúbbur og vill vera það áfram
Talaðir þú mikið við Arnór Smárason áður en þú tókst ákvörðun?
„Já, eins og ég sagði átti ég gott samtal við Arnór þegar þetta kom upp á borðið. Ég fékk að spyrja hann nokkurra spurninga og fá að heyra hvað það er sem hann vill gera með klúbbinn. Hammarby er toppklúbbur og vill halda áfram að vera það."
Hammarby varð meistari 2023, endaði í þriðja sæti deildarinnar 2024 og öðru sætinu, fjórum stigum á eftir Häcken, á síðasta tímabili.
„Það eru búnar að vera miklar breytingar frá síðasta tímabili en það eru líka komnir inn sterkir leikmenn. Eins og ég sagði eru stuðningsmenn Hammarby í heimsklassa og þeir líka vilja sjá fótbolta sem leikmenn eru mjög ágengir bæði í sóknarleik og varnarleik og það er stíllinn sem Hammarby vill spila og heillaði mig mikið."
Fyrsti leikur í deild og bikar gegn Rosengård
Guðrún varð í þrígang sænskur meistari sem leikmaður Rosengård.
Hvernig heldur þú að það verði að mæta Rosengård á næsta tímabili?
„Það hittir þannig á að við eigum þær bæði í fyrsta leik í bikar og fyrsta leik í deildinni. Það verður örugglega ótrúlega skrítið. Ég ber mikinn kærleik í mér fyrir klúbbnum, fólkinu sem þar er og þeirri reynslu og upplifunum sem klúbburinn gaf mér. Þannig það verður skrítið en á sama tíma hefur maður oft spilað við vini sína og það gildir alltaf það sama. Á vellinum erum við andstæðingar, utan vallar er nóg til af kærleik," segir Guðrún að lokum.
Athugasemdir


