Sádar búast við því að Salah fari frá Liverpool í sumar - Vicario á blaði hjá Inter - Palace hefur rætt við Úlfana um Strand Larsen
banner
   fös 23. janúar 2026 09:29
Elvar Geir Magnússon
Elías var mjög öflugur: Risastórt að vera í þessari stöðu
Elías hafði nóg að gera gegn Brann í gær.
Elías hafði nóg að gera gegn Brann í gær.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson hafði í nægu að snúast í 3-3 jafntefli Midtjylland gegn Brann í Evrópudeildinni í gær. Elías fær mikið lof fyrir sína frammistöðu en leikurinn var mjög opinn og mörkin hefðu hæglega getað orðið enn fleiri.

Midtjylland hefur verið að spila fantavel í Evrópudeildinni og er í fjórða sæti, tveimur stigum frá toppnum fyrir lokaumferðina.

„Það er alltaf gaman að spila leiki sem skipta miklu máli. Auðvitað erum við ekki ánægðir með úrslitin, við lékum ekki nægilega vel. Þessir Evrópuleikir skipta okkur gríðarlega miklu máli. Við erum að spila upp á toppsætið og það er risastórt. Það er saga sem við getum skrifað saman," sagði Elías við heimasíðu danska liðsins.

„Það eru blendnar tilfinningar eftir þennan leik því við sem lið spiluðum ekki nægilega vel, við gáfum of mörg færi á okkur. Hinsvegar er ég sáttur við mína persónulegu frammistöðu."

Í lokaumferð Evrópudeildarinnar í næstu viku mun Midtjylland taka á móti Dinamo Zagreb frá Króatíu.

„Við þurfum að gera betur í því sem við höfum verið að gera svo vel, vinna seinni boltann og setja pressu. Það er tilhlökkun fyrir leiknum á fimmtudaginn. Við verðum að tryggja okkur sæti í 16-liða úrslitunum," segir Elías að lokum.

Freyr Alexandersson stýrir Brann en norska liðið er í 22. sæti fyrir lokaumferðina. Liðin í sætum 9-24 komast í umspil í Evrópudeildinni.
Athugasemdir
banner