Sádar búast við því að Salah fari frá Liverpool í sumar - Vicario á blaði hjá Inter - Palace hefur rætt við Úlfana um Strand Larsen
banner
   fös 23. janúar 2026 22:09
Ívan Guðjón Baldursson
Spánn: Lífsnauðsynlegur sigur eftir magnaðar lokamínútur
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Levante 3 - 2 Elche
0-1 Alvaro Rodriguez ('11 )
1-1 Pablo Martinez ('50 )
2-1 Adrian De La Fuente ('68 )
2-2 Adam Boayar Benaisa ('92)
3-2 Alan Matturro ('96)

Fallbaráttulið Levante þurfti á sigri að halda þegar Elche kíkti í heimsókn í eina leik kvöldsins í spænska boltanum, en gestirnir tóku forystuna snemma leiks. Álvaro Rodríguez skoraði eftir einfalt þríhyrningsspil Elche manna upp völlinn og var staðan 0-1 í leikhlé þrátt fyrir gríðarlega mikið magn marktilrauna frá heimamönnum.

Levante átti 15 marktilraunir án þess að koma boltanum einu sinni á markrammann en Pablo Martínez jafnaði loks metin í upphafi síðari hálfleiks. Hann skoraði af stuttu færi eftir gott spil liðsfélaga hans og laglega fyrirgjöf frá hægri kanti.

Heimamenn voru áfram sterkari aðilinn og náðu þeir forystunni á 68. mínútu. Adrián de la Fuente skoraði þá með verulega góðum skalla eftir aukasyprnu.

Levante hélt forystunni dýrmætu allt þar til í uppbótartíma, þegar Adam Benisa gerði dramatískt jöfnunarmark fyrir Elche með glæsilegri hjólhestaspyrnu.

Staðan var þá orðin 2-2 en heimamenn brugðust mjög vel við og blésu strax til sóknar. Sóknarþunginn skilaði sér að lokum því Alan Matturro setti sigurmark á 96. mínútu með skalla eftir hornspyrnu, svo lokatölur urðu 3-2.

Levante er með 17 stig eftir 20 umferðir, þremur stigum á eftir Valencia sem situr í öruggu sæti. Elche er með 24 stig eftir 21 umferð.
Athugasemdir