
Framarar unnu sætan 1-0 sigur á Tindastól í Bestu deild kvenna í kvöld, en sigurmarkið kom á síðustu mínútu uppbótartímans. Óskar Smári Haraldsson, þjálfari Fram sagði tilfinnguna vera góða eftir leik.
„Frammistaðan var mjög góð í fyrri hálfleik, spiluðum mjög góðan fótbolta í fyrri hálfleik, svo svona aðeins droppar levelið hjá okkur í seinni hálfleik. Tilfinningin er góð, skrítin, ég var búin að sætta mig við jafntefli. Mér fannst við vera algjörlega on top í fyrri hálfleik og mér fannst Stólaliðið vera hættulegar þegar leið á leikinn og einhvern veginn var ég bara búinn að sætta mig við stig og alls ekki slæmt að fá stig á móti góðu fótboltaliði eins og Tindastól þannig já ég var mjög ánægður að sjá boltann í netinu, en var einhvern veginn búinn að sætta mig við jafntefli."
Lestu um leikinn: Fram 1 - 0 Tindastóll
Leikurinn í kvöld var sérstakur fyrir þær sakir að Óskar Smári var að mæta sínu uppeldisfélagi og litlu systur sinni, Bryndísi Rut fyrirliða Tindastóls.
„Það var erfitt. Ég er tilfinningavera og við grétum aðeins saman ég og systir mín áðan. Það var bara erfitt og ég vissi ekki að þetta yrði svona, ég átti von á að þetta yrði allt öðruvísi, að þetta yrði gaman og þetta var gaman í dag. En það var erfitt, ég ætla bara að vera heiðarlegur. Ekki bara litla systir mín, líka Donni þjálfari hinum megin þjálfaði mig þegar ég var leikmaður, hann og pabbi hans eiga mjög mikið í mér sem leikmanni þegar ég var að spila sjálfur. Ég væri að ljúga ef ég myndi segja að þetta hafi ekki verið eins og ég hefði viljað sjá það vera. Því þetta var mjög skrítið og dagurinn í dag er búinn að vera sérstakur. Ég er mikil tilfinningavera og það voru miklar tilfinningar í þessu og já þetta var sérstakt," sagði Óskar Smári.
Nánar er rætt við Óskar Smára í spilaranum hér fyrir ofan.