Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 23. nóvember 2021 23:18
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Lentu í Chelsea hakkavélinni og þeim var snýtt
Callum Hudson-Odoi fagnar marki í kvöld.
Callum Hudson-Odoi fagnar marki í kvöld.
Mynd: EPA
Chelsea spilaði frábærlega gegn ítalska stórliðinu Juventus í Meistaradeildinni í kvöld.

Chelsea vann að lokum 4-0 sigur og er í kjörstöðu að vinna riðil sinn. Frammistöðu liðsins var mikið hrósað í Meistaradeildarmörkunum á Stöð 2 Sport.

„Þeir lentu í hakkavél, Juventus - þeir lentu bara í Chelsea í hakkavélinni. Þeir lágu aftarlega í fyrri leiknum og ætluðu að gera það aftur, en Chelsea snýtti þeim gjörsamlega í kvöld," sagði Ólafur Kristjánsson.

„Það er erfitt að nefna einhvern einn," sagði Pálmi Rafn Pálmason spurður að því hvort einhver hefði staðið upp úr hjá Chelsea. „Við töluðum um varnarlínuna, Thiago Silva og Rudiger, en það var svo sem ekki mikið að gera fyrir þá. Juventus átti aldrei séns. Reece James var magnaður, mjög gott mark sem hann gerði."

„Kovacic er ekki með, Azpilicueta kemur inn á, Mount spilar ekki, Havertz er ekki, Lukaku er ekki... það er sama nánast hvaða leikmaður kemur inn í þetta konsept, það spila allir vel," sagði Ólafur.

Chelsea er ríkjandi Evrópumeistari. Spurt var að því hvort þeir gætu varið titilinn.

„Hvernig liðið hefur þróast í ensku úrvalsdeildinni og í Meistaradeildinni, þá er Chelsea klárlega lið sem er að fara að gera verulegt tilkall til að vinna og verja titilinn," sagði Ólafur sem hafði áður talað um að Bayern myndi vinna keppnina.

„Ég hugsa að þeir séu mjög ánægðir með sig í kvöld og þetta gefi þeim mikið sjálfstraust. Ég sagði í síðasta þætti að ég vissi ekki hverjir gætu stoppað Bayern. En ég held að við séum með lið þarna sem getur veitt þeim ansi góða keppni," sagði Pálmi, sem er leikmaður KR.
Athugasemdir
banner
banner
banner