þri 24. janúar 2023 14:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Langbesta liðið úr leik þrátt fyrir 9-0 sigur
Geyse Ferreira.
Geyse Ferreira.
Mynd: Barcelona
Barcelona vann á dögunum 9-0 sigur á Osasuna í sextán liða úrslitum spænska bikarsins. Kvennalið Barcelona er með mikla yfirburði á Spáni og hefur ekki tapað deildarleik í háa herrans tíð.

Það er líka langt síðan liðið tapaði í bikarnum því liðið hefur unnið keppnina þrjú ár í röð. Liðið nær ekki að verja titilinn þetta árið þar sem leikmaður sem átti að vera í banni tók þátt í leiknum og því hefur liðinu verið sparkað úr keppninni.

Geyse Ferreira átti að vera í banni þar sem hún var rekin af velli á síðasta tímabili. Þá lék hún með Madrid CFF og vakti Osasuna athygli á þessu eftir leikinn. Geyse var í byrjunarliði Barcelona í leiknum gegn Osasuna.

Hún átti að taka út bannið í næsta bikarleik eftir það, en Barcelona virðist ekki hafa verið meðvitað um það. Osasuna mun því fara í átta liða úrslit keppninnar.

Sama gerðist fyrir Sevilla sem vann 1-0 sigur á Villarreal en einn af varamönnum liðsins átti að taka út leikbann í leiknum.

Barcelona hefur verið sektað um þúsund evrur og hefur tíu daga til að áfrýja niðurstöðunni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner