Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mán 24. mars 2014 17:00
Andri Júlíusson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Upphitun fyrir norska boltann - Hvað gera Íslendingarnir?
Andri Júlíusson
Andri Júlíusson
Björn Bergmann gekk til liðs við Molde.
Björn Bergmann gekk til liðs við Molde.
Mynd: Molde
Steinþór Freyr Þorsteinsson, Indriði Sigurðsson, Jón Daði Böðvarsson, Sverrir Ingi Ingason og Björn Daníel Sverrisson leika með Viking.
Steinþór Freyr Þorsteinsson, Indriði Sigurðsson, Jón Daði Böðvarsson, Sverrir Ingi Ingason og Björn Daníel Sverrisson leika með Viking.
Mynd: Rogalands Avis - Jørn H. Skjærpe
Hannes mun verja mark Sandnes Ulf.
Hannes mun verja mark Sandnes Ulf.
Mynd: Getty Images
Matthías Vilhjálmsson skoraði mikið fyrir Start í fyrra.
Matthías Vilhjálmsson skoraði mikið fyrir Start í fyrra.
Mynd: Start
Viðar hefur skorað mikið á undirbúningstímabilinu.
Viðar hefur skorað mikið á undirbúningstímabilinu.
Mynd: Heimasíða Valerenga
Gummi Tóta er í liði Sarpsborg.
Gummi Tóta er í liði Sarpsborg.
Mynd: Heimasíða Sarpsborg
Keppni í norsku úrvalsdeildinni hefst um næstu helgi og hér að neðan má sjá stöðu mála hjá Íslendingunum fyrir mót sem og hjá meistaraliði Strømsgodset.

Það er virkilega spennandi sumar framundan hjá Íslendingum í Noregi í sumar. Fjöldinn allur af spennandi leikmönnum og eigum við allavega þrjá sem vonandi berjast um markakóngstitilinn. Sjálfur ætla ég að gerast svo djarfur og setja pressu á Strákana okkar og búast við 55 mörkum frá þeim öllum samanlagt í sumar.

Strømsgodset: Meistarar síðasta árs hafa farið rólega á markaðnum í vetur en eru að skoða ungan Belga sem lofar góðu en hann skoraði tvö mörk í sínum fyrsta æfingaleik í vikunni. Þeir hafa misst sinn besta leikmann Stefan Johansen sem var valin besti leikmaður deildarinnar í fyrra. Það voru skosku meistararnir í Celtic sem klófestu hann.

Molde: Eftir hræðilega byrjun hjá Ole Gunnar Solskjær á síðasta tímabili náðu þeir aðeins að rétta úr kútnum og enduðu í 6.sæti auk þess að þeir urðu Bikarmeistarar. Ole Gunnar var ekki eini maðurinn sem þeir hafa misst heldur tók hann með sér mesta efni, ef ekki besta leikmann Noregs í dag, Mads Möller Daeli til Cardiff. Björn Bergmann Sigurðarson er komin til Molde og hefur hann leikið vel á undirbúningstímabilinu og ef hann heldur uppteknum hætti frá Lilleström tímanum ætti hann að fara vel yfir 10 mörkin.

Viking Stavanger: Víkingar hafa farið hamförum á leikmannamarkaðnum í vetur og þar eru Íslendingar í fyrirrúmi. Björn Daníel Sverrisson hefur farið mjög vel af stað og ætti hann að vera lykilmaður í liðinu. Sverrir Ingi Ingason er hættur að vera efnilegur og orðinn virkilega góður leikmaður sem á eftir að mynda sterkt par með Kaptein Fantastic Indriða Sig sem hefur verið besti leikmaður Viking í nokkur ár.

Síðastur en ekki sístur flutti Steinþór Freyr Þorsteinsson sig yfir frá litla bróður í Sandnes og er það heldur betur skref upp á við fyrir þennan flotta leikmann sem hefur einnig farið vel af stað á undirbúningstímabilinu og má búast við fjöldanum öllum af mörkum, stoðsendingum og ekki síst fiskuðum vítaspyrnum sem hann er svo frægur fyrir. Einnig ætti Jón Daði að spila meira hlutverk á þessu tímabili en því síðasta. Hann hefur þroskast mikið og virkar spennandi.

Sandnes Ulf: Hannes Þór Halldórsson landsliðsmaður okkar hefur loksins stigið skrefið í atvinnumennsku og verður væntanlega aðalmarkvörður liðsins og hafa blöð og sérfræðingar lofað hann mikið. Sumir vilja meina að hann sé besti markvörður deildarinnar og eigi eftir að hjálpa Úlfunum að festa sig í sessi í deild þeirra bestu. Þrátt fyrir hestaofnæmi Steven Lennon vita allir hversu góður leikmaður hann er, hann átti örlítið erfitt uppdráttar á sínum fyrsta tímabili en getur vel orðið einn af betri leikmönnum liðsins.

Start: Eftir að hafa komið öflugur inn í Adeccoligunni gerði Matthías Vilhjálmsson sér lítið fyrir og skoraði 11 mörk á sinni fyrstu leiktíð með botnbaráttu liði Start sem hjálpaði þeim að tryggja sér sæti í deildinni. Guðmundur Kristjánsson er einnig mikilvægur fyrir liðið en hann getur leyst hvaða stöður sem er og gerði hann það á síðasta tímabili, allar nema markmann. Eins og allir vita skilar hann djúpa miðjumanninum best og vonandi fær hann þá stöðu.

Vålerenga: Viðar Örn Kristjánsson hefur komið eins og stormsveipur inn í norska boltann, ekki bara inni á vellinum þar sem hann skorar hvert markið á fætur öðru heldur hefur gítarinn hjálpað honum að aðlagast enn betur og meira að segja þjálfarinn og fyrrum landsliðsmaðurinn Kjetil Rekdal hrósað honum fyrir frammistöðu sína við sönginn. Viðar ætti að skora yfir tíu mörk á tímabilinu.

Sarpsborg: Eins og Viðar hefur söngfuglinn Guðmundur Þórarinsson spilað og sungið sig inn í hjörtu Sarpsborgarbúa en það var frammistaða hans á vellinum sem heillaði þó mest, hann var lykilmaður í botnbaráttunni á síðasta tímabili og var meira að segja sá leikmaður sem átti flestar heppnaðar sendingar á tímabili. Vonandi hjálpar Gummi Sarpsborg vera um miðja deild þrátt fyrir að hafa misst sinn besta leikmann í Mohamed Elyounoussi sem fór til Molde en hann er ekki síðri en bróðir sinn Tarek. Þórarinn Valdimarsson var í hálfgerðu aukahlutverki í fyrra.

Brann: Birkir Már Sævarsson er lykilmaður í liði Brann og leysir hægri bakvarðarstöðuna. Birkir er með afbrigðum duglegur eins og alltaf og alltaf til í að koma og leggja upp mörk.

Sogndal: Hjörtur Logi Valgarðsson færði sig um set frá Svíþjóð og hefur verið að spila vel á undirbúningstímabilinu og ætti vinstri bakvarðarstaðan að vera hans.

Lilleström: Pálmi Rafn hefur verið lykilmaður í liði Lilleström og það verður engin breyting þar á. Hann laumar alltaf inn einu og einu marki og var fyrirliði liðsins i einum af æfingarleikjum í ár. Spennandi að sjá hvort Pálmi tekur skrefið til fulls og bankar á dyrnar hjá Lars og Heimi með góðri frammistöðu hjá félagi sínu.
Athugasemdir
banner
banner
banner