Enski sóknarmaðurinn Jamie Vardy mun yfirgefa Leicester City þegar tímabilinu á Englandi lýkur nú í vor en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Vardy er 38 ára gamall og er titlaður sem „besti leikmaður í sögu félagsins“ í tilkynningunni.
Englendingurinn kom til Leicester frá Fleetwood Town árið 2012 og tveimur árum síðar fór hann upp í ensku úrvalsdeildina með liðinu.
Framherjinn afrekaði það ómögulega með Leicester tímabilið 2015-2016 er liðið varð Englandsmeistari í fyrsta sinn í sögunni og varð hann markahæstur í liðinu með 24 mörk. Hann varð einnig bikarmeistari með liðinu árið 2021.
Tímabilið 2019-2020 var hann síðan markahæsti maður deildarinnar og tvisvar var hann valinn í lið ársins.
Vardy féll á dögunum niður í B-deildina með Lecester og var óvíst hvort hann myndi taka slaginn með liðinu á næsta tímabili, en félagið hefur nú staðfest að þetta verði hans síðasta.
Á þessum þrettán árum hefur hann skorað 198 mörk fyrir Leicester, þar af 143 í ensku úrvalsdeildinni, sem er afrek út af fyrir sig enda spilaði hann ekki fyrsta úrvalsdeildarleik sinn fyrr en hann var 27 ára gamall.
Sannkölluð goðsögn en hann er ekki að hugsa um að leggja skóna á hilluna og verður spennandi að sjá hvar hann mun spila á næstu leiktíð.
Goodbye to the GOAT ???? pic.twitter.com/romej28Kbr
— Leicester City (@LCFC) April 24, 2025
Athugasemdir