Patrik Sigurður Gunnarsson stóð í marki Viking sem vann Sandefjord í markaleik, 4-3, í dag.
Staðan var 2-2 í hálfleik en Viking skoraði tvö og kom sér í góða stöðu áður en Sandefjord minnkaði muninn undir lokin.
Patrik stóð allan tímann á milli stanganna og er Viking á toppnum með 51 stig, tveimur stigum á undan Bodö/Glimt.
Ari Leifsson var í byrjunarliði Strömsgodset sem gerði 1-1 jafntefli við Molde. Hann fór af velli þegar stundarfjórðungur var eftir, en Logi Tómasson kom ekki við sögu. Strömsgodset er í 10. sæti með 27 stig.
Ísak Snær Þorvaldsson lék allan leikinn í 3-0 tapi Rosenborgar gegn Lilleström. Rosenborg hefur átt erfitt tímabil, en liðið sem var eitt sinn stórveldi í Noregi, situr nú í 9. sæti með 29 stig.
KA-maðurinn Brynjar Ingi Bjarnason var þá í hjarta varnarinnar er Ham/Kam gerði 1-1 jafntefli við Sarpsborg. Ham/Kam er í 11. sæti með 24 stig.
Í B-deildinni spilaði Brynjólfur Andersen Willumsson allan leikinn fyrir Kristiansund í 1-1 jafntefli gegn Bryne og þá var Bjarni Mark Antonsson í vörn Start í markalausu jafntefli gegn Moss.
Start er í 4. sæti með 39 stig en Kristiansund í 5. sæti með 35 stig.
Kolbeinn og félagar á skriði
Blikinn, Kolbeinn Þórðarson, og hans menn í Gautaborg eru á frábæru róli.
Liðið vann 1-0 sigur á Mjällby í dag og spilaði Kolbeinn allan leikinn, en Gautaborg hefur ekki tapað deildarleik síðan í byrjun ágúst. Guðmundur Baldvin Nökkvason kom inn af bekknum hjá Mjällby.
Gautaborg er í 10. sæti með 29 stig en Mjällby í 8. sæti með 34 stig.
Twente tapaði óvænt fyrir Waalwijk, 1-0, í hollensku úrvalsdeildinni, en þar var annar Bliki sem spilaði. Alfons Sampsted lék allan leikinn í vörn Twente, sem hafði unnið alla leiki sína í deildinni fram að þessu tapi. Twente er í 3. sæti með 12 stig.
Mikael Neville Anderson byrjaði þá í 1-1 jafntefli AGF gegn Randers, en Mikael fór af velli á 68. mínútu. AGF er í 5. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 13 stig.
Elías Rafn Ólafsson sat á bekknum hjá CD Mafra í portúgalska bikarnum. Liðið vann 5-0 sigur á Gafetense.
Ögmundur Kristinsson stóð þá í marki Kifisias sem tapaði fyrir hans gömlu félögum í Olympiakos, 4-0, í grísku úrvalsdeildinni. Kifisias, sem er nýliði í deildinni, er með 4 stig í 11. sæti deildarinnar eftir fimm leiki.
Athugasemdir