Tindastóll spilar við Víking Ólafsvík í úrslitaleik Fótbolta.net bikarsins á föstudaginn og býður Skagafjörður upp á fría rútuferð fyrir stuðningsmenn.
Rútan leggur af stað klukkan 13:00 og stoppar í Ölveri þar sem stuðningsmenn hita upp áður en þeir mæta á leikinn. Tónlistarmaðurinn vinsæli Helgi Sæmundur sér um að halda uppi stemningunni.
Tindastóll lagði Árborg, Þrótt Vogum og KFG að velli áður en komið var í undanúrslitin. Þar spiluðu Sauðkrækingar nágrannaslag við Kormák/Hvöt sem reyndist funheitur og gengu gestirnir frá Blönduósi allt annað en sáttir frá þeirri viðureign.
Tindastóll hefur verið spútnik lið Fótbolta.net bikarsins þar sem liðið leikur í 3. deild og er búið að slá út þrjá andstæðinga úr 2. deildinni á leið sinni í úrslitaleikinn. Víkingur Ó. leikur í 2. deild.
Athugasemdir