lau 25. maí 2019 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Messi: Auðvitað vil ég hafa Valverde áfram
Valverde og Messi.
Valverde og Messi.
Mynd: Getty Images
Liverpool vann Barcelona í Meistaradeildinni í ár.
Liverpool vann Barcelona í Meistaradeildinni í ár.
Mynd: Getty Images
Lionel Messi vill sjá Ernesto Valverde halda áfram sem stjóri Barcelona þrátt fyrir að liðið hafi fallið úr leik í Meistaradeildinni á hörmulegan máta.

Barcelona vann fyrri leik sinn gegn Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildarinnar 3-0 en tapaði seinni leiknum 4-0 á Anfield í Liverpool.

Valverde virðist ekki vera sérstaklega vinsæll hjá stuðningsmönnum Barcelona, en Messi segir að það sé ekki hægt að kenna honum um tapið gegn Liverpool. Messi vill að Valverde verði áfram.

„Ég tel að Valverde hafi gert góða hluti á tíma sínum hérna," sagði Messi við blaðamenn.

„Það var ekki hægt að kenna honum um neitt gegn Liverpool. Þetta skrifast á okkur leikmennina. Við spiluðum hræðilega."

„Auðvitað vil ég að hann haldi áfram."

Valverde er að klára annað tímabil sitt hjá Barcelona. Á báðum tímabilunum hafa Börsungar fallið úr leik í Meistaradeildinni eftir að hafa verið með gott forskot úr fyrri leiknum.

Í fyrra féllu Börsungar úr leik í 8-liða úrslitum gegn Roma eftir að hafa unnið fyrri leikinn 4-1 á heimavelli. Seinni leikurinn tapaðist 3-0 á útivelli.

Á báðum tímabilum hans hefur þó Barcelona unnið spænsku úrvalsdeildina og í fyrra vann liðið spænska bikarinn. Barcelona á einnig möguleika á því að vinna spænska bikarinn á þessari leiktíð, en liðið mætir Valencia í úrslitaleik klukkan 19:00 í kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner