Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   fim 25. maí 2023 22:04
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Stöð 2 Sport 
Orðlausir yfir lélegri frammistöðu KA - „Hálfgert nærbuxnadæmi“
Ingimar Stöle átti erfitt uppdráttar í kvöld.
Ingimar Stöle átti erfitt uppdráttar í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Ólafur Jóhannesson.
Ólafur Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við vorum hreinlega orðlausir yfir því hversu slappir KA-menn voru. Þetta voru 90 mínútur af hörmulegum varnarleik," sagði íþróttafréttamaðurinn Henry Birgir Gunnarsson í Tilþrifunum á Stöð 2 Sport.

Hann og Ólafur Jóhannesson ræddu þar um leik KA og Víkings sem Akureyrarliðið tapaði 0-4. Slök byrjun KA eru mikil vonbrigði fyrir félagið og fannst þeim mætingin í stúkuna í kvöld vera lélega.

Lestu um leikinn: KA 0 -  4 Víkingur R.

„Mér fannst KA-liðið bara mjög dapurt, það var eins og þeir hefðu ekki mætt til leiks. Þeir hafa tapað tveimur leikjum 4-0 á heimavelli, þetta er ekki gott. Víkingar sundurspiluðu þá. Eins og KA var gott í fyrra. Þeir eru í veseni með báða markverðina sína og ég held að þeir séu ekki nægilega góðir til að spila í alvöru liði í efstu deild. Þeim vantar líka markaskorara," sagði Ólafur.

Steinþór Már Auðunsson, Stubbur, missti stöðu sína í markinu eftir mistök í síðasta leik og Kristijan Jajalo gerði mistök í kvöld sem leiddu til þess að Víkingur skoraði fyrsta mark leiksins.

Ólafur talar um að leikmennirnir sem KA hafi sótt í vetur séu ekki nægilega góðir.

„Ef þeir eru að ná í útlendinga verða þeir að ná í betri menn. Þeir eru með menn á láni frá Viking í Noregi. Mér finnst þetta hálfgert nærbuxnadæmi. Svona gerir ekki klúbbur sem ætlar sér að berjast um titil."

Lítur út eins og gamalmenni
Hinn ungi Ingimar Torbjörnsson Stöle átti mjög erfitt kvöld og Birnir Snær Ingason fór illa með hann.

„Þessi varnarleikur. Hann lítur út eins og gamalmenni, hann er svo hægur," sagði Henry og Ólafur bætti við:

„Hann veit hver Birnir er og hversu fljótur hann er. Þú gefur honum ekki þessa rennu. Þetta er slakur varnarleikur en vel gert hjá Birni. Ingimar átti ekki góðan leik, ekki frekar en aðrir í KA-liðinu," sagði Ólafur.

„Þeir eru að tapa tveimur heimaleikjum 4-0, gengið er lélegt og mætingin léleg. Er heitt undir Hallgrími (Jónassyni, þjálfara KA)?" spurði Henry en KA er sextán stigum frá toppsætinu.

„Það held ég alls ekki, ég hef ekki nokkra einustu trú á því. Hallgrímur er óreyndur þjálfari þó hann hafi verið með Arnari (Grétarssyni) og átt farsælan feril," svaraði Ólafur.
Athugasemdir
banner
banner
banner