sun 25. júlí 2021 19:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ari lagði upp mark í tapi í Íslendingaslag - Meiðsli í Rússlandi
Ari Freyr Skúlason.
Ari Freyr Skúlason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ari Freyr Skúlason lagði upp mark Norrköping þegar liðið tapaði fyrir Hammarby í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Jón Guðni Fjóluson lék í hjarta varnarinnar hjá Hammarby og hjá Norrköping byrjaði Ari Freyr. Ísak Bergmann Jóhannesson var ekki með Norrköping í dag þar sem hann var að taka út leikbann.

Ari lagði upp mark fyrir Samuel Adegbenro eftir aðeins tveggja mínútna leik.

Hammarby kom til baka og náði að landa sigri. Sigurmarkið kom þegar sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Lokaniðurstaðan 2-1 sigur Hammarby, sem er í fjórða sæti með 21 stig. Norrköping er með 17 stig í sjötta sæti.

Þá gerð Häcken og Elfsborg 1-1 jafntefli. Óskar Sverrirsson lék allan leikinn í vinstri bakverðinum hjá Häcken á meðan Valgeir Lunddal var ónotaður varamaður. Häcken er í sjöunda sæti.

Arnór, Hörður og Willum ekki með
Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon voru ekki með CSKA Moskvu í dag er liðið vann 1-0 sigur á Ufa í fyrstu umferð rússnesku úrvalsdeildarinnar.

Þá er Willum Þór Willumsson ekki með BATE í Hvíta-Rússlandi í dag. Hann er að glíma við meiðsli, rétt eins og Hörður Björgvin og Arnór. Það styttist í að Arnór snúi aftur á fótboltavöllinn, hann er byrjaður aftur að æfa með liðinu sem eru frábærar fréttir.
Athugasemdir
banner
banner
banner