Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 25. september 2022 12:20
Ívan Guðjón Baldursson
Capello varaði Berlusconi við að kaupa Ronaldo
Mynd: Getty Images

Fabio Capello, fyrrum landsliðsþjálfari Englands, rifjaði upp tíma sinn við stjórnvölinn hjá Real Madrid tímabilið 2006-07. Það var annað skiptið sem hann tók við Real eftir að hafa stýrt félaginu tíu árum fyrr.


Brasilíska goðsögnin Ronaldo var á mála hjá Real þegar Capello tók við. Ronaldo hafði verið markahæsti leikmaður Real á hverju tímabili undanfarin ár en Capello var ekki sáttur með hugarfarið hjá stórstjörnunni og lét selja leikmanninn eftir sex mánuði í starfi.

AC Milan keypti Ronaldo í janúar 2007 fyrir um 10 milljónir evra. Silvio Berlusconi var eigandi Milan á þeim tímum og heyrði hann í Capello til að spyrjast fyrir um Ronaldo, sem var 30 ára gamall.

„Ég man þegar Silvio Berlusconi hringdi í mig til að spyrja út í Ronaldo. Ég svaraði honum að Ronaldo mætti varla á æfingar, hans aðal áhugamál væru partýstand og kvenfólk. Ég sagði við Silvio að það væru mistök að kaupa þennan leikmann," sagði Capello. „Daginn eftir sá ég fyrirsagnir fjölmiðla og þar töluðu allir um að Ronaldo væri á leið til Milan. Það var mjög fyndið.

„Ég er stoltur af ákvörðuninni sem ég tók á tíma mínum hjá Real Madrid. Það reyndist mikilvægt að selja Ronaldo og fá Antonio Cassano inn í staðinn. Cassano hjálpaði við að skapa siguranda í liðinu og við unnum titilinn þrátt fyrir að hafa verið níu stigum eftir Barcelona þegar tíu umferðir voru eftir. Ég er stoltur af því afreki enn þann dag í dag.

Til gamans má geta að Berlusconi er einnig hrifinn af partýstandi og kvenfólki og góðar líkur eru á að hann og Ronaldo hafi skemmt sér saman. Það er liðinn rúmur áratugur síðan portúgalska stórstjarnan Cristiano Ronaldo skemmti sér með Berlusconi og var látinn bera vitni í dómsmáli gegn þessum fyrrum forsætisráðherra Ítalíu.

Ronaldo skoraði 9 mörk í 20 leikjum hjá AC Milan. Hann átti í erfiðleikum með að halda sér í formi og var að glíma við meiðsli. Að lokum hélt hann heim til Brasilíu þar sem hann spilaði fyrir Corinthians síðustu ár ferilsins.


Athugasemdir
banner