Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 25. október 2020 18:55
Ívan Guðjón Baldursson
Noregur: Viðar Örn funheitur - Valdimar Þór skoraði
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Viðar Örn Kjartansson hefur komið sterkur inn í lið Vålerenga og skoraði hann eina mark liðsins í jafntefli gegn Kristiansund í dag.

Viðar Örn skoraði með laglegum skalla eftir sniðugt hlaup á milli varnarmanna á 59. mínútu leiksins. Viðari var svo skipt út 20 mínútum síðar til að gera pláss fyrir Matthías Vilhjálmsson.

Skömmu eftir skiptinguna gerði Bendik Bye jöfnunarmark Kristiansund og þar við sat, lokatölur 1-1. Viðari líður vel í Noregi og er hann kominn með sjö mörk í sex leikjum frá endurkomu sinni til Vålerenga.

Vålerenga er í harðri baráttu um Evrópudeildarsæti. Liðið er þremur stigum eftir Rosenborg þegar átta umferðir eru eftir af tímabilinu.

Vålerenga 1 - 1 Kristiansund
1-0 Viðar Örn Kjartansson ('59)
1-1 Bendik Bye ('82)

Valdimar Þór Ingimundarson og Ari Leifsson byrjuðu þá á bekknum hjá Strömsgodset sem heimsótti Molde.

Molde var 1-0 yfir þegar þeim félögunum var skipt inn á 78. mínútu en skömmu síðar tvöfölduðu heimamenn forystuna. Það leið þó ekki á löngu þar til Valdimar Þór kom knettinum í netið eftir frábæran sprett upp völlinn.

Það var of lítill tími eftir til að jafna og er Strömsgodset fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið eftir tapið.

Að lokum tapaði botnlið Álasundar fyrir Odd Grenland. Davíð Kristján Ólafsson var ónotaður varamaður hjá Álasundi en hann hefur verið mikið í kringum byrjunarliðið í haust.

Álasundi hefur gengið herfilega á leiktíðinni og er liðið aðeins með 1 sigur eftir 22 umferðir.

Molde 2 - 1 Strömsgodset
1-0 M. Ellingsen ('70)
2-0 L. James ('82)
2-1 Valdimar Þór Ingimundarson ('85)

Ålesund 0 - 3 Odd Grenland
0-1 L. Bjortuft ('45)
0-2 Egell-Johnsen ('65)
0-3 M. Bakenga ('84)
Athugasemdir
banner
banner
banner