Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 25. október 2021 18:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Titill á fyrsta tímabili Arnórs í MLS - Aron fór meiddur af velli
Arnór Ingvi Traustason.
Arnór Ingvi Traustason.
Mynd: Getty Images
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Ingvi Traustason spilaði rúman klukkutíma þegar New England Revolution kom til baka á dramatískan hátt gegn Nani og félögum í Orlando City í MLS-deildinni í Norður-Ameríku.

Nani, sem er fyrrum leikmaður Manchester United, kom Orlando City yfir í leiknum þegar 39 mínútur voru liðnar. Orlando bætti við marki úr vítaspyrnu snemma í seinni hálfleiknum og útlitið ekki gott fyrir New England.

Arnór Ingvi og félagar sýndu hins vegar mikinn karakter og komu til baka. Adam Buksa, sem kom inn á sem varamaður í hálfleik, minnkaði muninn á 83. mínútu og jafnaði metin svo í uppbótartíma leiksins.

Lokatölur 2-2. New England er búið að tryggja sér Stuðningsmannaskjöldinn. Það lið sem er með bestan árangur fyrir úrslitakeppnina fær þann titil. New England er búið að vera langbesta liðið í MLS-deildinni til þessa, en framundan er úrslitakeppnin og þar er stóru verðlaunin.

Arnór Ingvi er á sínu fyrsta tímabili með New England og hann hefur spilað stórt hlutverk. Þrátt fyrir það hefur þessi 28 ára gamli leikmaður ekki verið í síðustu tveimur landsliðshópum.

„Fyrir þetta verkefni töldum við aðra leikmenn betur til þess fallna að sinna því hlutverki sem Arnór Ingvi getur leyst og hefur leyst frábærlega fyrir landsliðið," sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, þegar Arnór Ingvi var ekki valinn í landsliðið fyrir leiki í september.

Aron fór meiddur af velli
Aron Einar Gunnarsson var að venju í byrjunarliði Al Arabi í Katar, og hann spilaði 35 mínútur þegar liðið gerði jafntefli við Al Ahli á útivelli í dag.

Aron fór meiddur af velli en ekki er vitað hversu alvarleg þessi meiðsli eru. Al Arabi er í þriðja sæti deildarinnar í Katar með 13 stig.

Aron var ekki í landsliðshópi Íslands vegna utanaðkomandi aðstæðna. Hann og Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður FH, eru sakaðir um að brjóta kynferðislega gegn konu eftir landsleik í Danmörku 2010. Aron og Eggert segjast báðir vera saklausir í þessu máli.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner