sun 26. mars 2023 21:09
Brynjar Ingi Erluson
Mikill kærleikur milli Bellingham og Gerrard - „Sönn ánægja að standa hérna"
Steven Gerrard knúsar Jude Bellingham
Steven Gerrard knúsar Jude Bellingham
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Enski miðjumaðurinn Jude Bellingham hafði ekkert nema fallega hluti að segja um Steven Gerrard, fyrrum leikmann Liverpool og enska landsliðsins, eftir 2-0 sigur Englands á Úkraínu í undankeppni EM í kvöld.

Gerrard var spekingur í setti hjá Channel 4, en eftir leikinn mætti Bellingham í viðtal.

Bellingham hefur oft talað um að Gerrard sé hans helsta fyrirmynd en þeir tveir fengu að ræða saman eftir leikinn.

Gerrard hefur áður sagt að hann ætli sér að gera allt sem í hans valdi stendur til að fá Bellingham til Liverpool en það var mikill kærleikur á milli þeirra tveggja í kvöld.

„Klárlega. Hlutirnir sem Stevie gat gert hjá þeim liðum sem hann spilaði með og hvernig hann gat borið lið á herðum sér og unnið leiki upp á sitt einsdæmi. Hann gat gert allt sem miðjumaður og ég hef sagt það oft áður að ég lít mikið upp til hans og það er sönn ánægja aðvera með honum í settinu,“ sagði Bellingham.

Gerrard hrósaði Bellingham sömuleiðis í hástert.

„Leyfðu mér að segja þér eitt að þú ert kominn miklu lengra en ég var kominn á þínum aldri. Þú ert á leið í rétta átt. Bellingham er í betra líkamlegu standi en þegar ég var 19 ára. Svona í alvöru, því ég var aldrei með þennan kraft og styrkleika fyrr en ég varð kannski 22 eða 23 ára, þannig hann er mun þroskaðri en ég var.“

„Hann er mun öruggari en ég var á boltanum svona miðað við það sem hann reynir. Ég er ekki bara að segja þetta til að vera hógvær heldur er þetta sannleikurinn. Hann er kominn lengra en ég þegar ég var 19 ára. Ekki samt misskilja mig því ég komst á þann stað sem ég vildi komast á og hann mun gera það ef hann heldur áfram að gera það sem hann er að gera.“

„Hann er á frábærum stað og hann þarf bara að halda áfram á sömu braut og restin mun ráðast að sjálfu sér,“
sagði Gerrard í lokin.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner