Arsenal gerir tilboð í Gyökeres - Man Utd skipuleggur tilboð í Delap - Spurs býðst Sane
   mán 26. maí 2025 18:54
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Harmleikur í Liverpool - Handtekinn fyrir að aka á fólk í skrúðgöngunni
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Þúsundir stuðningsmanna voru komnir saman í miðborg Liverpool til að fagna enska meistaratitlinum með liðinu. Leikmenn Liverpool keyrðu í gegnum borgina á þaklausri rútu.

Því miður gekk þetta ekki áfallalaust fyrir sig. Einstaklingur hefur verið handtekinn fyrir að keyra inn í hóp manna og margir eru slasaðir.

„Við erum nú að fást við tilkynningar um umferðaróhapp í miðbæ Liverpool. Haft var samband við okkur rétt eftir klukkan 18 í dag, mánudaginn 26. maí, eftir að tilkynningar bárust um að bíll hefði keyrt á nokkra gangandi vegfarendur á Water Street. Bíllinn stöðvaði á vettvangi og karlmaður var handtekinn," segir í tilkynningu lögreglunnar í Liverpool.

„Atburðirnir í Liverpool eru hræðilegir. Hugur minn er hjá öllum þeim sem særðust og öðrum sem þetta hafði áhrif á. Ég vil þakka lögreglu og neyðarþjónustu fyrir skjót og áframhaldandi viðbrögð við þessum skelfilega atburði. Ég er upplýstur um framvindu mála og bið um að við gefum lögreglunni það svigrúm sem hún þarf til að rannsaka," sagði Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands.

Sjónarvottar hafa greint frá því að atvikið hafi átt sér stað um tíu mínútum eftir að rútan hafði ekið í gegnum þann hluta leiðarinnar. Mannfjöldinn dreifðist síðan og gatan fylltist af fólki. Veitingastaður við götuna þar sem atvikið átti sér stað hefur nú verið breytt í bráðabirgða bráðamóttöku.
Athugasemdir