Jackson nálgast Bayern - Mainoo gæti farið frá Man Utd - Como hafnaði tilboði Tottenham í Paz
   þri 26. ágúst 2025 12:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sandra María á leið aftur út í atvinnumennsku
Kvenaboltinn
Algjör lykilmaður hjá Þór/KA.
Algjör lykilmaður hjá Þór/KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var öflug á EM.
Var öflug á EM.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Landsliðskonan Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, er á leið út í atvinnumennsku. Hún var besti og markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar á síðasta tímabili.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er um spennandi tækifæri að ræða og verður hún tilkynnt hjá nýju félagi á fimmtudag. Ekki hafa fengist upplýsingar um land eða félag. Allt er frágengið nema læknisskoðun og svo verður sóknarmaðurinn tilkynnt hjá nýju félagi.

Sandra María er þrítug og hefur á sínum ferli leikið með Bayer Leverkusen (2016 lán og 2019-21) og Slavía Prag (2018 lán) erlendis. Allan sinn feril á Íslandi hefur hún spilað með Þór/KA.

Hún á að baki 57 landsleiki, byrjaði alla þrjá leiki Íslands á EM í sumar og var með betri leikmönnum liðsins.

Hún hefur skorað tíu mörk í fjórtán leikjum í Bestu deildinni á þessu tímabili. Einungis Berglind Björg Þorvaldsdóttir, hjá toppliði Breiðabliks, hefur skorað fleiri mörk í deildinni.

Þór/KA er sem stendur í 5. sæti Bestu deildarinnar, þremur stigum á eftir Val sem hefur spilað leik meira og fimm stigum fyrir ofan Stjörnuna þegar fjórar umferðir eru í að deildinni verður skipt upp í efstu sex og neðstu fjögur. Næsti leikur Þórs/KA verður gegn Fram á laugardag.

Athugasemdir