„Tilfinningin er mjög góð. Bara meiriháttar að ná að klára þetta gegn góðu liði Tindastóls. Þetta er bara mjög gott.“ sagði Ingólfur Sigurðsson, leikmaður Víkings Ólafsvíkur, eftir 2-0 sigur í úrslitaleik Fótbolta.net bikarnum gegn Tindastól.
Lestu um leikinn: Víkingur Ó. 2 - 0 Tindastóll
„Þetta var lokað í fyrri hálfleik sem er kannski eðlilegt í úrslitaleik, við vorum að gefa fá færi á okkur. Svo opnaðist þetta strax með þessu marki í seinni hálfleik. Ég held að þetta hafi verið nokkuð sanngjörn niðurstaða þótt að Tindastóll sé með mjög gott lið.“
Fyrsta mark leiksins var glæsilegt, Ingólfur líkti því við Ronaldinho.
„Ég held að þetta hafi verið hundaheppni hjá honum. En hann er náttúrulega geggjaður spyrnumaður en þetta var bara glæsilegt mark sem á heima í úrslitaleik. Fyrsta sem ég hugsaði var Ronaldinho gegn Englandi 2002. Þetta var dálítið svipað, bara glæsilegt.“
Seinna markið kom úr aukaspyrnu á sama stað nema þá fann Luis enniða á samlanda sínum Ivan Lopez.
„Þeir tengja vel, samlandarnir. Þetta var frábærlega vel gert.“
Stólarnir vildu tvær vítaspyrnur í seinni hálfleiknum, hvernig sá það við Ingólfi?
„Ég veit það ekki. Ég sá fyrra skiptið sem mér fannst ekki vera víti. Það er erfitt að sjá þetta þegar maður er inn á vellinum því þetta gerist svo hratt.“
Viðtalið við Ingólf má finna í heild sinni í spilaranum hér að neðan
Athugasemdir