Gian Piero Gasperini, þjálfari Atalanta á Ítalíu, hefur tjáð félaginu að hann vilji fara í sumar en þetta segir blaðamaðurinn Matteo Moretto í kvöld.
Gasperini tók við Atalanta árið 2016 en árin á undan hafði liðið verið að flakka á milli sæta í neðri hlutanum.
Hann kom Atalanta í Evrópudeildina á fyrsta tímabili sínu þar og gerði það að einu besta liði Ítalíu á tíma sínum hjá félaginu. Þremur árum síðar kom hann liðinu í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn.
Á síðasta ári fékk hann loks þá viðurkenningu sem hann átti skilið er Atalanta varð Evrópudeildarmeistari með því að vinna 3-0 sigur á Bayer Leverkusen, sem var þá heitasta lið Evrópu.
Atalanta hafnaði í 3. sæti deildarinnar á þessu tímabili og tryggði sér enn og aftur sæti í Meistaradeildina, en þetta var í fjórða sinn sem liðið hafnar í 3. sæti undir hans stjórn sem er um leið besti árangur í sögu félagsins.
Einnig fór hann þrisvar með liðið í bikarúrslit en tapaði öllum úrslitaleikjunum.
Þetta var hans síðasta tímabil með Atalanta en hann hefur formlega tjáð félaginu að hann ætli ekki að vera áfram og beðið það um að leyfa honum að fara í viðræður við önnur félög.
Samkvæmt ítölsku miðlunum er hann talinn líklegastur til að taka við Roma. Félagið hefur boðið honum þriggja ára samning
Athugasemdir