Arsenal gerir tilboð í Gyökeres - Man Utd skipuleggur tilboð í Delap - Spurs býðst Sane
   þri 27. maí 2025 20:30
Brynjar Ingi Erluson
Arda Turan ráðinn til Shakhtar (Staðfest)
Mynd: Shakhtar Donetsk
Úkraínska félagið Shakhtar Donetsk tilkynnti komu tyrkneska þjálfarans Arda Turan í dag en hann gerir samning til næstu tveggja ára.

Turan verður 39. þjálfarinn í sögu Shakhtar en hann var ráðinn aðeins nokkrum dögum eftir að Marino Pusic var látinn taka poka sinn.

Shakhtar hefur verið langbesta lið Úkraínu á þessari öld með fimmtán deildartitla, en liðið hafnaði í 3. sæti á þessu tímabili og mun ekki spila í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Það vann hins vegar bikarinn og fer því í Evrópudeildina, en hann er með háleit markmið og eitt af þeim er að vinna Evrópukeppni, sem hefur ekki tekist síðan 2009 er það vann UEFA-bikarinn í fyrsta og eina skiptið.

„Það fyllir mig stolti að hafa samið við frábært og söguríkt félag eins og Shakhtar. Þetta er lið sem er vel þekkt um alla Evrópu, sem hefur metnað til að vinna hvern einasta leik. Ég vonast til að leggja mitt af mörkum til að styrkja arfleifð klúbbsins og færa stuðningsmönnum okkar mörg gleðileg augnablik. Við viljum ólmir vinna titla, bæði í Úkraínu og í Evrópu,“ sagði Arda Turan.

Arda Turan er goðsögn í Tyrklandi. Hann spilaði með Atlético Madríd, Barcelona og Galatasaray á löngum ferli sínum og lék 100 landsleiki með Tyrkjum.

Hann tók við Eyjupspor í heimalandinu fyrir tveimur árum og kom þeim upp í úrvalsdeildina á fyrsta tímabili sínu. Turan náði frábærum árangri sem nýliði í úrvalsdeildinni í ár með því að stýra liðinu í 6. sæti.
Athugasemdir
banner
banner