Roma sakar fyrrum leikmann félagsins, Nicolo Zaniolo, um að hafa beitt tvo leikmenn unglingaliðs Roma ofbeldi með hnefahöggum. Zaniolo viðurkennir að hafa misst stjórn á skapi sínu en segist ekki hafa kýlt neinn.
Átök mynduðust eftir að Fiorentina vann Roma í unglingaflokki í Flórens í gær. Zaniolo er nú leikmaður Fiorentina, á láni frá Galatasaray.
Átök mynduðust eftir að Fiorentina vann Roma í unglingaflokki í Flórens í gær. Zaniolo er nú leikmaður Fiorentina, á láni frá Galatasaray.
Roma segir Zaniolo hafa farið inn í klefa unglingaliðs Roma eftir leikinn og beitt tvo leikmenn líkamlegu ofbeldi. Hann hafði horft á leikinn úr stúkunni en um var að ræða undanúrslitaleik um Ítalíumeistaratitil unglingaliða.
„Ég fór í klefann til að óska Fiorentina strákunum til hamingju. Ég kom við í klefa Roma til að óska þeim til hamingju með tímabilið. En einn af leikmönnunum brást illa við og hraunaði yfir mig," segir Zaniolo.
Hann segist hafa misst stjórn á skapi sínu en segir að þó ljót orð hafi verið látin falla hafi ekki nein líkamleg átök átt sér stað. Ítalska fótboltasambandið er með málið til skoðunar.
„Ég vil biðjast afsökunar á því sem gerðist. Viðbrögð mín voru ekki til fyrirmyndar og ég tek fulla ábyrgð."
Zaniolo er 25 ára og hefur verið mikið á flakki síðustu ár og gengið illa að ná ferli sínum á skrið. Hann var hjá Roma 2018-2023 en síðan hefur hann verið lánaður til Aston Villa, Atalanta og Fiorentina frá Galatasaray.
Athugasemdir